9.12.2007 | 10:39
Jólin fyrir austan og telpurnar mínar....
Flestum jólum telpnanna minna þegar þær voru að alast upp eyddum við á Reyðarfirði, þar sem við bjuggum í mörg ár. Stella var á Þriðja ári þegar við fluttum þangað og Hulda byrjuð í skóla.
Ég fór með það í veganesti að heiman að jólin voru afar merkileg bæði í trúarlegum skylningi og einnig mikil hátíð sem þyrfti að vanda allan undirbúning að. Mamma gerði alltaf allt hreint og bakaði mikið og einning sá hún til þess að allir fengju nýja flík til að vera í á jólunum. Af þessu má ráða að ég hélt í hefðina og hef alltaf verið mikið jólabarn og vildi að dætur mínar fengju að kynnast jólum á þann hátt sem ég hafði vanist - ég komst upp með það og fyrir austan var firrverandi tengdamóðir mín Sigríður Eiríksdóttir, yndisleg kona sem ég var fljót að kynnast og ég gladdist þegar ég vissi að hún var með svipaðar væntingar til jólanna og hún mamma. Stundum bökuðum við saman fyrir jólin og höfðum samband eða heimsóttum hvor aðra oft.
En ég ætla að tala um jólin í Hvammi, lítilli kjallaraíbúð sem við leigðum á meðan við vorum að byggja húsið í Stekkjarbrekkunni.
Dagana fyrir jól var allt á fullu hjá mér að undirbúa jólin, en var jafnframt að vinna í Kaupfélagsbúðinni hálfan daginn...þar var nóg að gera þessa síðustu daga fyrir jólin.
Hulda og Stella voru spenntar hver á sinn hátt, því þær eru frekar ólíkar. Stella var afar spennt en Hulda lét það ekki eins uppi, en samt sá maður spennu glampann í augunum þegar þær trítluðu berfættar á aðfangadagsmorgun til þess að kíkja í skó í glugga, en einhverra hluta vegna var alltaf eitthvað veglegt þar þennan morgun, merkilegra en dagana á undan.
Við borðuðum í litlu stofunni og ef við fengum ekki rjúpur þá var hamborgarahriggur með brúnuðum kartöflum og öllu því sem tilheyrði hátíðinni - oftast bjó ég til ananasfromance í eftirrétt.
Við borðuðum á meðan messan var sungin og eftir það var vaskað upp og þá hjálpuðu dæturnar við að taka af borðinu og þá loksins eftir uppvask og frágang var hægt að setjast aftur inn í stofu. Stella iðaði í skinninu af spenningi og byrjað var að útdeila gjöfunum sem voru mikið fleiri en þær gjafir sem við systkinin á Sauðanesi höfðum vanist alla vega nokkur fyrstu jólin okkar þar, en tímarnir voru breyttir og meiri velmegun í landinu.
Hulda fékk mikið af bókum, hún hafði erft frá ömmu Huldu og mér kannski líka mikin bókaáhuga og var og er mikill lestrarhestur, Stella var meira fyrir dótið og tónlistina enda nokkrum árum yngri. Frá foreldrunum fengu þær rauða útigalla, Hulda úlpu og skíðabuxur en Stella heilgalla...allir voru glaðir og sælir og við mæðgurnar lásum í nýjum bókum fyrir svefninn. Held að þessi jól hafi dúkkan hún Adda Sigga sem svo var nefnd strax komið úr einum jólapakkanum - hún var lengi í uppáhaldi og er til ennþá, falleg dúkka eins og nafna hennar var. En eftir að búið var að opna gjafirnar stundi Stella mín upp þessari gull setningu sinni " Mamma. eru nú jólin búin ?".............
Teknar voru myndir þetta kvöld, man að Stella var í grænrósóttum nýjum kjól með hvítum kraga og Hulda í köflóttum kjól með belti en kjólana hafði mamma mín sent þeim en hún sá alveg um jólafötin á þær nokkur fyrstu jólin þeirra. Alltaf voru þær ánægðar með kjólana sína. Á jóladag var farið út í nýju göllunum og farið í hádegismat á Heiðarveginn þar sem þeir fjölskyldumeðlimir húsbóndans sem bjuggu í firðinum komu saman, alltaf glatt á hjalla í hangikjötsveislunni hjá Siggu og Adda.
Já, jólin héldu áfram að vera skemmtileg.....og verða vonandi alltaf sú hátíð sem okkur var kennt að njóta, það sem ég man líka að fyrir mann var lagt var að á jólunum áttu allir að vera í góðu skapi og engin mátti fara í fílu og allir áttu að vera góðir hvorir við aðra. Gott veganesti það.
E.S.
Smáminning um Trygg.
Tryggur hét hundur sem fólkið sem við leigðum hjá átti og sótti Stella mikið í hann, ósjaldan fékk hann að sofa í þvottahúsinu hjá okkur og þar fékk hann vatn og mat þegar hann vildi, stundum þegar ég þurfti að skreppa eitthvað smástund var nóg að Tryggur væri hjá okkur þá var Stella örugg með sig og hélt utan um hálsinn á honum.
Hann var mikið gæðablóð og þegar við fluttum í Stekkjarbrekkuna kom hann oft í heimsókn og svaf líka stundum þar í þvottahúsinu. Það var mikið sorg þegar Þuríður Briem eigandi hundsins hringdi í mig einn daginn og sagði mér að hann væri dáinn. Stella grét mikið. Lengi á eftir fannst mér hann standa við stofugluggann og dilla skottinu og biðja um að komast inn. Margar góðar minningar tengjast honum og Stellu.
Meira síðar, vona að þið hafið notið lestursins......
Athugasemdir
Ekkert smá gaman að lesa þetta, rifjar upp skemmtilegar minningar. Já, ég man hvað ég grét mikið þegar Tryggur dó, man það frá A-Ö..vevvvvvvvv..
Stella (IP-tala skráð) 9.12.2007 kl. 11:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.