23.10.2008 | 17:19
Atvinnulaus....
Kæru vinir
Hér stend ég, eftir erfiðar vikur í bankanum.
Ég var svo í smá fríi með dætrum mínum í mæðgnaferð í Minneapolis í í Ameríku. Kom heim í gær. Þessi ferð var keypt í maí þegar orlofið var greitt. Við hættum við að fara "bara"í verslunarferð, eftir allt sem á undan hefur gengið á landinu okkar kæra en ákváðum samt að fara eftir að hafa skrapað saman einhverju af dollurum.
Ég var úrvinda þegar við mæðgur fórum í þessa ferð. Bankastarfsmaðurinn eftir alla þessa hræðilegu daga var alveg búin. En þvílík gleði að vera með þessum undursamlegu dætrum mínum sem eru báðar leiðtogar hver á sína vísu ! Mér þótti mjög gott að komast í þeirra hendur og láta þær stjórna ferðinni. Við dvöldum á góðu hóteli, hættum við að vera of verslunarglaðar - vegna "ástandsins" nutum hverrar mínútu - fórum út að borða, löbbuðum mikið , fórum í sund og heita potta, horfðum á góðar bíómyndir, lásum - en fyrst af öllu - vorum í sama herbergi og hlógum og létum mátulega öllum illum látum - eða þannig. Takk elsku dætur mínar fyrir að hafa mig með í ferða-pakkanum - þið eruð frábærar - og mikið var þetta gaman ! Ferð sem aldrei gleymist !
Þegar á Islenska grund var komið, fékk ég upphringu frá útibústjóranum mínum - heim til mömmu og pabba - ég var orðin atvinnulaus - því var erfitt að kyngja að sjálfsögðu. Í flugvélinni á leiðinni norður ákvað ég að kæfa mig ekki í hugsunum og las í bók alla leiðina. Dagurinn í dag, fór síðan í að jafna tímamismun, fara í bankann, kveðja og tala og .......gráta....smá...og kanna aðeins stöðu mína, mér skilst að ég eigi rétt á launum næstu 6.mánuðina en Gamli Landsbankinn á víst ekki mikið eftir í sínum sjóðum svo ég veit hreinlega ekki hvernig þetta fer. Við vorum fimm hér sem ekki vorum ráðin í nýja bankann, þrátt fyrir að hafa unnið þar síðan skiptin urðu. Svo á eftir að sjá hvernig þetta allt fer ef bankar verða sameinaðir, þá fara fleiri. Ég hugsa til allra hinna sem verið hafa að missa vinnu sína í bönkunum og öðrum stofnunum þessa dagana og bið þess að við komumst í gegn um þessa daga og getum haldið áfram með reisn.
Ég ætla ekki að leggjast í eymd og volæði, ég loka einum dyrum og opna aðrar -
Lífið er dýrmætt, gefumst ekki upp - tækifærin bíða, því trúi ég, en ég vildi óska að þeir sem bera ábyrgð verði látnir sæta þeirri ábyrgð. Það eru fjölskyldurnar í landinu sem blæða......
Love
Athugasemdir
Þessi hrunadans er mjög spes fyrir okkur Íslendinga, maður er einhvern veginn áhorfandi að eigin "andláti", það jákvæða er að við erum að vakna til meðvirundar og höfum möguleika á að knýja fram réttlæti.
Nú skilur maður ástæður þess að uppreisn er gerð í sumum löndum.
Ég hugsa að það sé alveg grundvöllur fyrir henni nú!
Þvílíkir aular sem hafa verið við völd og þvílíkir imbar sem hafa sinnt eftirliti með fjármálastofnunum.
Sömu imabr eru að gera bankana upp eftir að þeir rúlluðu vegna þess að það var ekkert eftirlit!
Formaður skilanefndar gerður að bankastjóra á sömu launum á mánuði og aldraðir foreldrar mínir fá samanlagt á ári.
Þó var jákvætt að gefa upp launin, höldum því til haga.
Vilborg Traustadóttir, 23.10.2008 kl. 20:34
Það er svo margt sem á eftir að koma í ljós. En grandvaraleysi eftirlitstofnana er skelfilegt ! Já, Vilborg aular og imbar - ég vil nýja ríkisstjórn og aðra bankastjórn í Seðlabanka.
Hulda Margrét Traustadóttir, 24.10.2008 kl. 13:52
Takk sömuleiðis fyrir frábæra ferð elsku mamma
Stella (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 17:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.