20.1.2009 | 20:06
Stór dagur...
Mikil mótmæli við alþingishúsið og Barack Obama sór embættiseið vestur í henni Ameríku.
Það er einhver taug hjá mér til Ameríku eftir að hafa komið þangað eldsnöggt í haust. Svo á ég þar fjölmarga ættingja á vesturströndinni, afkomendur föðursystur minnar sem flúði landið okkar fyrir mörgum tugum ára ásamt sinni fjölskyldu og föðurbróður mínum. Það var þá þegar landinn fór í leit að betra lífi - þau voru í hópi vesturfara.(vonum að fólk þurfi ekki að flýja landið umvörpum núna). Þau komust vel af og þar búa afkomendur þeirra enn þann dag í dag.
Ég skil vel þessi mótmæli hér á landi en bið þess enn og aftur að engin slasist og að lögreglan þurfi ekki að takast á við mótmælendur - Gerið það - mótmælendur, mótmælum friðsamlega! En það hefur svo sem aldeilis ríkt langlundargeð íbúa á Íslandi. Ég frétti að dóttir mín og tengdasonur hefðu komist óslösuð frá þessum degi sem lögregluþjónar í Reykjavík. Ég er þakklát fyrir það.
Í Ameríku gleðst fólk yfir nýjum forseta sínum - það skil ég líka vel. Manni sýnist að þar séu að koma ný og skýr skilaboð til umheimsins. Þá hugsar maður fyrst og fremst til heimsfriðar.
Mættum við eiga von á einhverju slíku hér á landi. Skírum skilaboðum um réttlæti og bræðralag. Ég vil gjarnan ganga til kosninga í vor !
En látum friðarboðskapinn fylgja með - verum trú sjálfum okkur. Sköðum ekki aðrar manneskjur.
Megið þið eiga góða nótt
Athugasemdir
Gott að heyra að dóttir þín og tengdasonur séu heil.
Veistu að ég get ekki ákveðið mig hvort ég vil ganga til kosninga í vor. Ég vil breyta því þannig að maður geti kosið persónur en ekki allann flokkinn eða ekki.
En veistu að ég held að á meðan fólk lætur reiðina stjórna sér og espar upp annað fólk í það, þá er ekki hægt að setjast niður og vinna vinnuna sem þarf til að breyta því sem þarf að breyta.
Hafðu það gott ljúfan
Anna Guðný , 20.1.2009 kl. 21:19
Þar er ég er sammála þér að því leiti að ég vildi geta kosið um menn en ekki flokka !
Langlundargeðið er búið Anna mín, það er svo lítið verið að gera fyrir okkur, hefur svo lítið með vinnufrið að gera. Það verður ekki ró í landinu firr en einhverjar afgerandi breytingar verða gerðar. Það ættu ráðamenn að vera farnir að skilja. Það er ég þó "sauðsvartur almúginn" farin að skilja fyrir allnokkru síðan.
Knús til þín dúllan mín. Þarf að fá hana vinkonu þína til mín á morgun eða hinn. Ég hringi í hana. Sofðu rótt
Hulda Margrét Traustadóttir, 20.1.2009 kl. 21:29
Kannski er ég eldri konan með hækjuna?
Vilborg Traustadóttir, 20.1.2009 kl. 22:22
Aldrei að vita Vilborg, þó í mínum huga teljist þú ekki til eldri kvenna
Hulda Margrét Traustadóttir, 20.1.2009 kl. 22:28
Þessi dagur er sá svartasti að mínu mati í sögu þjóðarinnar lengi, en kannski um leið sá bjartasti.
Kemur í ljós á næstu misserum!
Gott að heyra af hjónunum fyrir sunnan, vonum það allra besta í framhaldinu, sem er óskýrt núna finnst mér!!!
Magnús Þór Jónsson, 20.1.2009 kl. 23:28
Lifi byltingin- flauelsbyltingin er hafin. Ég lamdi ljósastaur með hækju! Gáði samt vel að því að skemma ekki staurinn! Svona er manni innprentað að bera virðingu fyrir verðmætum....Vevvvvv....
Vilborg Traustadóttir, 20.1.2009 kl. 23:37
P.s Ég barði þó ekki lóminn!!!!
Vilborg Traustadóttir, 20.1.2009 kl. 23:38
Já Maggi, svartasti og bjartasti - það er spurning em við vonandi fáum svarað.
Vilborg - gott að þú skemmdir ekki staurinn ! Já, okkar kynslóð lærði það þó að bera virðingu fyrir hlutum og eldra fólki sérstaklega . Vonandi verður flauelsbyltingin mjúk eins og flauel og allir fái mjúka lendingu.
Hulda Margrét Traustadóttir, 21.1.2009 kl. 07:39
Vilborg..gaman að sjá þig í gær, hefði verið skemmtilegra undir öðrum kringumstæðum hehe.
Já vonum að friðasamlegra verði það..
Stella (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 14:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.