Vetrarloft...

Eftir að hafa verið inni í Norðurporti í dag í góðum félagsskap gesta og sölufólks, ákvað ég eftir góðan kvöldmat hjá mínum ektamaka að gleyma sjónvarpi og fara í göngutúr. Ektamakinn fór að horfa á Sporting/Benfica fótboltaleik og ég dreif mig út með húsdýrið.

Það var byrjað að hvessa, ég búin að forða öllu lauslegu inn af svölunum (enda veðurspá ekki beysin) og við drifum okkur út í vindinn sem gnauðaði hátt.

Mikið var það hressandi. Við gengum þessa fallegu leið niður göngustíginn við Glerána. Það var ekki köttur á kreiki ( sem betur fer, mitt húsdýr, viðkvæmt fyrir köttum) við mættum aðeins einum manni á reiðhjóli sem bauð gott kvöld og brosti á móti vindinum og okkur . Smile Jú, einum manni,síðar hálf villuráfandi með símann á eyranu í leit að réttu blokkinni og að rétta partýinu heyrðist mér.

Voffi minn fékk að losna aðeins við ólina sína og við gengum frjálslega áfram (blessunarlega auðan stíginn, sem hafði greinilega verið yfirfarinn af bæjarstarfsmönnum, takk fyrir það, lítil sem engin hálka) þvílík dýrð !

Allt í einu varð himininn sem hafði verið þungbúin framan af göngu,  heiðskýr...Líklega er hann að breyta um átt,  hugsaði vitavarðardóttirin af gömlum vana og staldraði við. Leit upp í himininn og starði á stjörnurnar tindra. Þvílíkt andartak ! Við vorum ein í heiminum um stund ég og hann Dalí minn og við hlustuðum á niðinn í Gleránni syngja fallegan taktfastann söng. Undurfallegt.

Ég hugsaði til vina og vandamanna sem yfirgefið hafa þennan heim og varð glöð í hjarta mínu vegna þess að ég trúi því að þeir svífi einhverstaðar þarna úti í himingeimnum, frjálsir og glaðir.

Svona andartök skila manni hressari heim og eftir klukkutíma göngu var ég endurnærð eftir daginn.

Og svo sagði spakmælið mér þetta þegar ég kom heim :

Vegferðin gegnum lífið getur

stundum verið þreytandi og

erfið en góður félagsskapur

gerir ferðina miklu

ánægjulegri. Réttu

samferðafólki þínu

hönd vináttunnar.

Ég spyr, hver vill ekki hönd vináttunnar ?

Dalí var vinur minn í þessari ferð og ég veit að hann hefði ekki yfirgefið mig, hefði ég dottið í hálku eða ef eitthvað annað hefði komið fyrir mig. Enda hefði ég ekki yfirgefið hann ef hann eða misst flugið á einhvern hátt.

Við erum of góðir vinir til þess. Það var líka gott að bæta fyrir það að ég hafði ekki verið með húsdýrinu mínu í allan dag. Við áttum góða stund saman.

Ektamakinn fær svo knús í kvöld Wink 

Megið þið vinir mínir eiga góða nótt og dreymi ykkur vel.

Einfaldleikinn í lífinu er stundum bestur Heart 

Dagurinn á morgun verður góður. Því trúi ég Sleeping

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Falleg lýsing á góðum göngutúr.

Einhvern veginn öfundaði ég EKKI þann sem var að leita að partýinu!

Vilborg Traustadóttir, 22.2.2009 kl. 11:07

2 Smámynd: Hulda Margrét Traustadóttir

Svo sammála þér systir. Gott að vera löngu hættur að æða um og leita að einhverju....

Hulda Margrét Traustadóttir, 22.2.2009 kl. 18:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband