25.4.2009 | 08:06
Eftirminnilegasti kosningadagurinn.....
Þann 29. júní 1980 kaus þjóðin sér forseta og frú Vigdís Finnbogadóttir var kjörin fjórði forseti lýðveldisins. Það er góð minning að hafa stuðlað að kjöri hennar.
Ég bjó á Reyðarfirði á þessum tíma og var með í því að taka á móti henni þar og fara með henni á nokkra vinnustaði. Við borðuðum saman hádegisverð hjá einni góðri stuðningskonu hennar og það var létt yfir okkur, á borðum var góður fiskréttur og við drukkum vatn með. Reyndar féll það ekki í góðan jarðveg hjá öllum sem mér voru tengdir þá í firðinum góða að ég væri að stússast í þessu en ég hélt mínu striki þrátt fyrir það enda vön að hafa skoðanir á hlutunum.
Ég man þá hamingjutilfinningu sem gagntók mig þarna undir morgun á Mánagötunni, þegar ég gekk út fyrir og ljóst var orðið að Vigdís hafði unnið. Bæði var það tilfinning mikillar gleði að kona skildi vera kosin til forseta og svo það að hafa tekið þátt í þessu vali og aðstoðað líka. Því þegar ég heyrði að engin fengist til að taka á móti Vigdísi í firðinum góða, í undirbúningi forsetakosningana - gekk ég fram og bauðst til þess og fékk síðan í lið með mér nokkrar góðar konur. Mikið er ég stolt af því að hafa stutt Vigdísi á þessum degi !
Þetta er minn eftirminnilegasti kosningadagur, hamingjudagur fyrir konur á Íslandi.
Verður kosningadagurinn í dag eftirminnilegur ? - Maður spyr sig.
Akureyri bíður upp á frekar þungbúið veður núna í morgunsárið og það er svalt úti. Ég er loksins búin að gera það upp við mig hvað ég ætla að kjósa og hlakka til kvöldsins og bíð spennt eftir niðurstöðunni - en það verður held ég engin kjördagur fyrir mig sem á eftir "að toppa" kjördaginn 29.06.1980.
Það er ljúft að hugsa til þess dags.
Megi kosningadagurinn verða til þess að hagur Íslendinga vænkist og þessi lúna þjóð eigi von um betri daga í nánustu framtíð.
Ég fletti dagatalinu af handahófi og skrifa spakmælið sem upp kom:
Hugleiddu hvað heimurinn væri
miklu betri ef allir verðu fimm
mínútum á hverjum degi til að
bæta líf annarra.
Í guðs friði
Athugasemdir
Nú er bara að kjósir rétt. Það gæti orðið þrautin þyngri.
Magnús Sigurðsson, 25.4.2009 kl. 09:10
Vonum það besta - vona að þér takist að ákveða þig eins og mér tókst eftir umræðurnar í sjónvarpinu í gær
Hulda Margrét Traustadóttir, 25.4.2009 kl. 09:12
Sveiflaðist um tíma á mill tveggja í umræðunum, en niðurstaðan varð engin.
Magnús Sigurðsson, 25.4.2009 kl. 09:42
Komin af kjörstað og er fegin að hafa notað atkvæðið mitt !
Hulda Margrét Traustadóttir, 25.4.2009 kl. 19:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.