22.10.2009 | 20:08
Langt síðan síðast.....
Já, það er alltof langt síðan ég hef skrifað hér - er farin að sakna stundanna minna hér. En ég hef einfaldlega haft svo mikið að gera.
Það breytti auðvitað miklu að fá vinnu og mér líkar vel í nýju vinnunni sem er þó ekki nema til áramóta fyrir víst. En þegar maður hefur verið atvinnulaus í næstum ár, lærir maður að það er ekki allt gefið og er þakklátur fyrir hvern dag sem maður fær að mæta í vinnu. Svo ég ætla ekki að velta mér uppúr því heldur njóta hvers dags sem ég get mætt í vinnu og vera glöð með það. Svo - koma tímar og koma ráð, það er þó ekki alveg útilokað að ég verði ráðin áfram......kemur allt í ljós. Það er einmitt eitt ár núna síðan ég missti vinnuna eftir 27 ár í bankanum.
Svo á auðvitað Norðurport hug minn allan þess utan - allt í einu er ég farin að vinna alla daga vikunnar og kvöldin með ;) Þar er allt í uppsveiflu nú á haustdögum eftir frekar slakt sumar. Ég er mjög þrjósk og ætla að halda áfram þar í vetur í þeirri góðu von að veturinn verði okkur hagstæður - enda fullt af góðu fólki með mér sem vill að Norðurport haldi áfram. Í desember verður Norðurport eins árs og þvílíkt hvað maður hefur lært á þessu eina ári á rekstri Norðurports og kynnst mörgu nýju. Mér finnst að þörfin fyrir slíkan markað sé frekar að aukast en hitt. Það er von mín að Norðlendingar verði duglegir að koma í Norðurport og styðja við það sem þar er að gerast - frábært handverk og margt fleira.
Ég hef líka verið í þeirri krísu undanfarið að hafa stórar áhyggjur af heilsufari elstu systur sem er búin að glíma við krabbamein síðan í sumar. Útlitið er ekki gott en ég hef kosið þá leið að uppörva hana, leita óhefðbundinna leiða til þess að reyna að hjálpa henni og neita að trúa því versta firr en sá dagur kemur að það versta gerist. Það er mín ósk og von að það eigi ekki eftir að gerast en þá verður maður að takast á við það þegar og ef til þess kemur. Auðvitað hugsar maður og hugsar um það sem liðið er og það hversu gott maður hefur átt að þurfa ekki að takast á við þann alvarleika að missa náin ástvin í þessu lífi utan þess sem eðlilegt má teljast, ömmurnar og afana og frænkurnar og frændana sem flest voru orðið gamalt fólk, með fáum undantekningum. En svona í innsta hring höfum við fjölskyldan verið heppin og eigum hvort annað að enn þann dag í dag. Það er svo þakkarvert.
Við systur höfum alltaf verið nánar, hún er einu ári eldri en ég og í gegn um lífið eigum við svo margar minningar sem ég hef verið að fara í gegn um stig af stigi núna síðustu dagana - Ég hitti hana síðast í ágúst og kemst vonandi fljótlega aftur í heimsókn til hennar þar sem hún dvelur nú á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum, Þegar mesta hættan á svínaflensunni er liðin hjá. Það gefur auga leið að það væri slæmt fyrir svona mikið veikt fólk eins og hún er að fá þá flensu.
Í gær var átta ára dóttursonur minn fyrir aðkasti á leið heim úr skólanum. Hann var bitin af skólafélögum sínum og barin og hrópuð að honum orð sem ekki ættu að þekkjast í þessum aldursflokki....Mikið óskaplega varð ég hissa - þessi ljúflingur sem aldrei mundi gera flugu mein. Barn á saklausri göngu á björtum degi að lenda í slíku. Það sýnir manni enn og enn að það er engin öruggur í þessari veröld okkar sem ekki virðist lagast þrátt fyrir allt sem á undan er gengið.
En - elskurnar mínar, nú er ég búin að fá smá útrás og ætla að vera duglegri að skrifa hér inn og vonast til að gömlu bloggvinir mínir séu ekki alveg búnir að gleyma mér.
Ég hef saknað ykkar dúllurnar mínar.
Með ást og friði
Athugasemdir
Það þarf að taka af mikilli festu á málinu með eineltið og gera það strax. Treysti foreldrunum vel til þess og vona að kennarar og skóli ásamt foreldrum hinna drengjanna taki höndum saman og uppræti þessa tegund af grimmd.
Knús á ykkur öll.
Vilborg Traustadóttir, 22.10.2009 kl. 20:25
Gangi þér vel með Norðurportið ! Vona líka að systur þinni gangi vel
Svo er ég sammála Vilborgu - einelti er eitthvað sem þarf að taka á með festu og það strax.
knús á þig
Sigrún Óskars, 22.10.2009 kl. 21:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.