Lífið er lærdómsferðalag.

 

Ég hef verið að líta yfir farin veg og árið 2009.

Í öllum blöðum má lesa um þá sorgarsögu sem yfir okkur Íslendinga var leidd seint á síðasta ári og ætla ég ekki að skrifa um það hér. Líta má í hvaða blað sem er til þess að skoða þau mál betur og engin veit hvernig þetta endar fyrir þjóðina. Maður er farin að standa sig að því að slökkva á fréttum og fletta ofurhratt yfir dagblöðin.

Hjá mér var það helsta á þennan veg.

* Atvinnulaus, byrjaði ég árið 2009 - en hafði í desember 2008 opnað Norðurport - lifandi markað til að skapa mér eitthvað að gera og hafði þá þegar fengið skrifstofuaðstöðu og aðstoð hjá "Sprotasetri" sem atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar rekur. Dvaldi þar oft eftir hádegi á daginn til að byrja með en þar sem reksturinn var byrjaður varð minna úr að ég hefði tíma til að vera þar. En frábært framtak þar á ferð ég flutti þaðan út aftur í júní.

* Árið byrjaði á húsnæðisleit fyrir áframhaldandi markað þar sem fyrsta húsnæðið reyndist vera of dýrt og ég þorði ekki að halda þar áfram - Datt niður á annað húsnæði sem hentaði en það þurfti að laga og í það fór janúar mánuður með aðstoð frá góðu fólki.

* Norðurport opnað að Laufásgötu 1 þann 30. janúar. Góður gangur.

* Var samt alltaf að sækja um vinnu og spyrjast fyrir þar sem ég taldi mig vel geta stundað dagvinnu aðra daga vikunnar og verið síðan í Norðurporti um helgar.

* Tíminn leið og ég notaði hann vel til að hlúa að fjöregginu mínu Norðurporti og hafði mikinn stuðning frá sölufólki og heimafólki. Kynntist aragrúa af góðu fólki og naut þess að koma Norðurporti á koppinn og geri enn. Vonandi á Norðurport eftir að blómstra áfram.

* Var stöðugt að reyna að finna uppá einhverju skemmtilegu til að vera með þar. Ýmislegt gert, myndlistarsýningar, tónlistarflutningur, Taílenskt kvöld o.f.l.

* Í maí var mér boðið af móður minni í ferð til Póllands en þangað var yngri systir mín að fara á heilsuhælið Uzboja. Þáði boðið og sé ekki eftir því - sú ferð varð upphafið að því að lifa heilsusamlegra lífi í mat og drykk fyrir nú utan það að við systur skemmtum okkur vel þessar tvær vikur og meðtókum allt heila "sakramentið" og komum heim léttari á sál og líkama. Ótrúlega góður tími þar sem maður þurfti ekki að hugsa um neitt annað en um sinn eigin líkama og sál Smile 

Þar fyrir utan eru eftirminnileg "fliss" okkar á kvöldin og seta okkar á eftirmiðdögum með vatnsliti og blokkir úti í góða maíveðrinu. Hvort mig langar aftur ? Ekki spurning - en tíminn verður að leiða í ljós hvort af því getur orðið.

* Þegar heim var komið hélt ég áfram - eftir þessa góðu byrjun og í árslok var ég 26 kílóum léttari en ég var í maí og þetta var alveg ótrúlega auðvelt. Borða bara meira grænmeti og ávexti og sleppa nokkrum þáttum sem manni fundust ómissandi áður - en ég segi fyrir mig að ég hef alls ekki saknað neins og er alsæl með minn nýja lífsstíl. Og ekki sakar að hreyfa sig meira.

Ekki má gleyma því að með okkur í þessari ferð var Rósa Ingólfsdóttir, sú skemmtilega kona og náðum við vel saman allar þrjár. Sátum alltaf á kvöldin eftir dagsprógrammið og spjölluðum með tebollana okkar í hendi og það var margt skemmtilegt og skrítið sem við ræddum Wink

* Eiginmaðurinn brá sér til heimalandsins í júní og dvaldi þar í þrjár vikur.

* Við systurnar ég og Vilborg stóðum fyrir hippaballi númer tvö sem haldið var í endaðan júlí að Ketilási í Fljótum og tókst vel - Við bættum um betur frá firra ári og héldum markað að deginum og þar mættu að sjálfsögðu Norðurportskonur og við bættist sölufólk úr heimahéraði - Siglufirði Skagafirði og Fljótum. 

Allt tókst þetta vel og gátum við vel við unað eftir langan undirbúning. Hljómsveitin Stormar stóð með okkur annað árið í röð og spilaði lög 68 kynslóðarinnar af mikilli snilld. Gjörningurinn á túninu þar sem ballgestir mynduðu "Peace" merkið var flottur með Rögnvald Valbergsson í fararbroddi, spilandi á gítar og allir sem þarna voru sungu " Allt sem við viljum er friður á jörð"

* Í júlí fréttum við að elsta systir Solla væri eitthvað lasin þar sem hún dvaldi heima hjá sér í Albufeira í Portúgal. Héldum að læknar þar sem sögðu hana hafa fengið hitasjokk vissu hvað að amaði.

* Norðurport tók þátt í Akureyrarvöku og hélt markað á Ráðhústorgi sem tókst afar vel þrátt fyrir rigningu.

* Á afmælisdegi pabba míns 13 ágúst ( hann varð 91 árs ) komu mæðgurnar Solla systir og dóttir hennar Lúcý heim eftir erfitt ferðalag frá Portúgal. Solla var þá orðin það mikið veik að hún þurfti hjólastól alla leið og ljóst að yngsta dóttir hennar Lúcý sýndi ótrúlegan dugnað við að komast heim með mömmu sína - Áður hafði Maggi elsti sonur hennar fengið hjálp frá Utanríkisráðuneytinu og fleiri aðilum til þess að þessi ferð gengi eins vel fyrir sig og kostur var. Sama kvöld vissum við að eitthvað alvarlegt var að gerast, Solla var mjög mikið veik.

* Næstu dagana var stöðugt samband við krakkana hennar Sollu og aðra ættingja og vini - útlitið var ekki gott, æxli í heila og sennilega í lungum líka, æxlið í heilanum var ekki hægt að nálgast og í framhaldinu var tappað af vatni sem var í heilanum með skurðaðgerð og síðar reynd geislameðferð sem ekki dugði.

* Frá því þann 13 ágúst var Solla á sjúkrahúsi og gat lítið sem ekkert komist um. Fyrst á Landspítalanum og síðan á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum. 

Allan þann tíma var hún ákveðin í því að hún ætlaði að ná sér og við útveguðum henni allt það sem hægt var í óhefðbundnum lækningum sem talið var að gætu hjálpað og var hún afar dugleg við að trúa á það alltsaman og nýta sér. Lífsbarátta hennar var aðdáunarverð og hún var svo ákveðin í því að nú væri hún alkomin heim til að vera með börnunum sínum og barnabörnunum og til að eldast með reisn eins og hún sagði.  Ég vil trúa því að hennar líf hafi lengst vegna þeirra hollustudrykkja sem hún drakk og henni hafi liðið betur þeirra vegna, allavega framan af. 

Ég dvaldi hjá henni eina nótt á sjúkrahúsinu í ágúst og þá sagði hún mér að henni fyndist hún vera að deyja og krabbinn væri að heltaka hana. Það var sárt að heyra.

* Ég fékk vinnu í endaðan ágúst hjá Íslandspósti og var auðvitað alsæl með það - góður vinnustaður og gott fólk þar - Mér finnst ég hafa verið afar heppin. Það sem eftir var af árinu var ég því í vinnu alla daga vikunnar fyrir utan þá daga sem ég þurfti að skreppa frá vegna veikinda systur minnar.

* Í endaðan október fórum við hjónin til Eyja, hittum Sollu á sjúkrahúsinu þar og áttum með henni góðar stundir. Við gátum spjallað og hlegið og það er ómetanleg minning. Síðustu orð hennar til mín eftir að ég kvaddi hana á föstudagsmorgni áður en haldið var til skips voru - Sjáumst síðar - síðan sendi hún mér fingurkoss og við sögðumst elska hvor aðra Smile Næstu vikurnar hrakaði henni mikið og í lok nóvember var hún orðin mjög veik.

* Ég var nýkomin í vinnuna á mánudagsmorgun 30 nóvember þegar hringt var í mig og mér var sagt að Solla systir mín hefði látist klukkan 08.45. Ég var búin að undirbúa samstarfsfólk mitt og búin að óska þess að fá að fara heim ef ég fengi þessar fréttir í vinnuna. Ég stóð því grátandi upp frá skrifborðinu mínu og mitt frábæra samstarfsfólk hjálpaði mér í gegn um þessa eldraun.

Ég vildi komast heim hringja í stelpurnar mínar hitta manninn minn og tala við pabba minn og mömmu og aðra ættingja. Fékk síðan um morguninn heimsókn frá sóknarpresti Akureyrarkirkju og áttum við góða stund saman, þessi stund og bæn sem við fórum með hjálpaði mér mikið. Dagurinn var síðan mjög þokukenndur. Ég fékk góðar heimsóknir blóm og fallegar sendingar frá fyrrverandi og núverandi samstarfsfólki og varði stund af deginum í að raða þessu öllu falleg upp í kring um mynd af systur minni sem ég trúði ekki að væri dáin og ég gæti aldrei talað við aftur. Þannig líður mér enn þann  dag í dag.

Það er notalegt til þess að hugsa að eiga svona marga vini á Akureyri og nágrenni.

* Sunnudaginn 5 desember fórum við systkinin ég og Jonni bróðir suður og hittum fjölskylduna og allir sem gátu og ekki voru þegar úti í Eyjum, fóru síðan með Herjólfi út til Eyja það sama kvöld og kistulagt var á mánudegi klukkan 13:00. Erfiðari stund hef ég ekki upplifað. Síðdegis var haldið uppá land með kistuna og fór útförin hennar Sollu fram frá Hafnarfjarðarkirkju á miðvikudegi að viðstöddu fjölmenni. Athöfnin var afar falleg þar sem mikið var grátið en líka hlegið og á Vestmannaeyjapresturinn, Kristján sem jarðsöng Sollu miklar þakkir skyldar fyrir þessa athöfn. Þau höfðu hist og náð að tala sig saman um ýmislegt áður en hún kvaddi þennan heim.

Ég náði því að standa við það sem ég var búin að biðja um að fá að halda undir kistuna hennar síðasta spölinn frá bíl að gröf ásamt sonum hennar, bræðrum mínum, tengdasyni hennar og systursyni. Í Garðakirkjugarði á Álftanesi hvílir nú elskuleg systir mín á fallegum stað. 

Það var gott að hitta vini og ættingja og það hjálpaði mikið þennan dag - Þá skyldi ég í fyrsta sinn hvað erfidrykkja getur hjálpað við aðstæður sem þessar.

Ég er ákaflega stolt af börnunum hennar Sollu sem allan þennan tíma sýndu mikið æðruleysi og lofuðu okkur öllum að fylgjast með gangi mála. Þrátt fyrir það sem á þau var lagt, voru þau með alla þætti inni strax um það sem þurfti að gera og undirbjuggu afar vel þessa fallegu kveðjustund. Þar sem tónlistin og allt sem fram fór við útförina var fallegt, gleðiríkt og sorglegt í bland.

Einnig, þrátt fyrir allt hefur þetta ferli styrkt okkar fjölskyldubönd og voru og eru allir í fjölskyldunni sem einn maður að reyna að hjálpa til og munu halda því áfram því þetta sorgarferli er bara rétt að byrja. Það fann ég svo sterkt á aðfangadagskvöld þar sem ég sat og grét meðan messan var sungin.

* Sollu systur minnar verður alltaf minnst með bros á vör. Því hvað sem amaði að og hverjir sem erfiðleikarnir voru sem steðjuðu að var henni einkar lagið að kalla fram bros við erfiðar aðstæður og slá á létta strengi. Grín var Sollu í blóð borið og hún var einkar lagin við að "setja upp" grátbroslegar aðstæður Smile 

Stórt skarð er nú höggvið í fjölskylduna á Sauðanesi. En minningar og myndir munu lifa með okkur um ókomin ár. Ég hef farið yfir í huga mínum undanfarið ótal, ótal stundir og samræður okkar systra og þar er svo margs að minnast sem fylgir mér allt til enda minna daga. Dýrmætt og gott.

Að sjálfsögðu voru bugður á okkar vegi eins og allra annarra við vorum ekki alltaf sáttar hvor við aðra og þær stefnur sem við ákváðum í lífinu hvor fyrir sig en eftir stendur það að elsta systir mín Solla var mér fyrirmynd á svo margan hátt og ég heyri nú á mörgum stundum orð hennar og ráðleggingar. Við vissum svo margt hvor um aðra sem engin annar veit. Já, böndin frá bernsku og unglingsárum eru sterk. Og á síðari árum styrktust þau enn þrátt fyrir veikindi og erfiðleika í hennar lífi.

* Jólin okkar voru róleg og góð. Tími til að hvílast íhuga, gleðjast og gráta.

* Á þessum gamlársdegi þegar ég lít um öxl er ég þakklát fyrir svo margt. Fyrir dæturnar mínar og barnabörnin, fjölskylduna mína og alla ættingjana, alla góðu og gömlu vinina mína, fyrir allt það góða fólk sem ég hef kynnst á árinu í gegn um markaðinn Norðurport og í gegn um nýju vinnuna mína hjá Íslandspósti.

* Hér sit ég við glugga og horfi á vestur og austurfjöll Eyjafjarðar böðuð í desembersól. Litirnir eru ægifagrir, snjór yfir öllu og hafið svo blátt. Falleg leiktjöld sem kveðja þetta ár 2009 sem nú er að líða í aldanna skaut og aldrei kemur til baka. Það er með meiri eftirsjá en áður sem ég kveð eitt ár. Áramót hafa þó oftast skilið eftir einhvern trega í brjósti mér.

Upp rennur nýtt ár og hvað það á eftir að kenna okkur verður að koma í ljós.

Bjartsýn verðum við að vera. 

Lífið er jú, lærdómsferðalag.

Gleðilegt ár ættingjar og vinir um allt land. Þakka af alhug allar samverustundir á árinu.

Guð blessi okkur öll og landið okkar góða. Heart

 

Gleðilegt nýtt ár, takk fyrir árið sem nú er að líða. Takk fyrir samhug og samveru.

Megi nýja árið færa okkur djörfung og dug !

Heart

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Góð hugleiðing. Það er ekki spurning við verðum að reyna að fara aftur til Póllands í vor.

Áramótakveðjur, heyrumst!

Vilborg Traustadóttir, 31.12.2009 kl. 14:43

2 Smámynd: Sigrún Óskars

já góð hugleiðing og þú virðist sátt.

gleðilegt ár og megi nýtt ár færa þér kærleika og gleði.

kveðja norður í kuldan og snjóinn  

Sigrún Óskars, 2.1.2010 kl. 23:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband