Eftirminnilegasti kosningadagurinn.....

Þann 29. júní 1980 kaus þjóðin sér forseta og frú Vigdís Finnbogadóttir var kjörin fjórði forseti lýðveldisins. Það er góð minning að hafa stuðlað að kjöri hennar.

Ég bjó á Reyðarfirði á þessum tíma og var með í því að taka á móti henni þar og fara með henni á nokkra vinnustaði. Við borðuðum saman hádegisverð hjá einni góðri stuðningskonu hennar og það var létt yfir okkur, á borðum var góður fiskréttur og við drukkum vatn með. Reyndar féll það ekki í góðan jarðveg hjá öllum sem mér voru tengdir þá í firðinum góða að ég væri að stússast í þessu en ég hélt mínu striki þrátt fyrir það enda vön að hafa skoðanir á hlutunum.

Ég man þá hamingjutilfinningu sem gagntók mig þarna undir morgun á Mánagötunni, þegar ég gekk út fyrir og ljóst var orðið að Vigdís hafði unnið. Bæði var það tilfinning mikillar gleði að kona skildi vera kosin til forseta og svo það að hafa tekið þátt í þessu vali og aðstoðað líka. Því þegar ég heyrði að engin fengist til að taka á móti Vigdísi í firðinum góða, í undirbúningi forsetakosningana - gekk ég fram og bauðst til þess og fékk síðan í lið með mér nokkrar góðar konur. Mikið er ég stolt af því að hafa stutt Vigdísi á þessum degi !

Þetta er minn eftirminnilegasti kosningadagur, hamingjudagur fyrir konur á Íslandi.

Verður kosningadagurinn í dag eftirminnilegur  ? - Maður spyr sig.

Akureyri bíður upp á frekar þungbúið veður núna í morgunsárið og það er svalt úti. Ég er loksins búin að gera það upp við mig hvað ég ætla að kjósa og hlakka til kvöldsins og bíð spennt eftir niðurstöðunni - en það verður held ég engin kjördagur fyrir mig sem á eftir "að toppa" kjördaginn 29.06.1980.

Það er ljúft að hugsa til þess dags.

Megi kosningadagurinn verða til þess að hagur Íslendinga vænkist og þessi lúna þjóð eigi von um betri daga í nánustu framtíð.

Ég fletti dagatalinu af handahófi og skrifa spakmælið sem upp kom:

Hugleiddu hvað heimurinn væri

miklu betri ef allir verðu fimm

mínútum á hverjum degi til að

bæta líf annarra.

Í guðs friði Heart

 


Atvinnuleysi....kíkið á þetta....

Minni á nordurport.is þar sjáið þið það sem um er að vera um helgina !

Svo er bara að standa af sér kuldahrollinn sem setur að manni eftir að hafa fengið fínan sumardag í gær - það kemur dagur eftir þennan dag - dagur fyrir snauða og ríka !

Var að skila vottorði til vinnumiðlunar hér á Akureyri í dag og þar voru nokkrir sem sátu og biðu eftir viðtali. Mikið leið mér illa þarna inni það var ekki létt yfir mannskapnum..... og er það nema von ? Ég bara spyr ?

Það var vonleysi í svip fólks enda ekki auðvelt að ganga þarna inn fyrir vinnusamt fólk sem þekkir ekki annað en mæta í vinnuna á hverjum virkum degi. En það er ljós í myrkrinu kæru vinir, virkjum okkur sjálf og gerum eitthvað í málunum - svo getið þið alltaf komið í Norðurport og selt allt óþarfa dót sem þið lumið á , því það er mín reynsla að tiltekt verður ofarlega á blaði við atvinnumissi Wink Við tökum vel á móti ykkur og segið mér endilega frá því ef þið eruð atvinnulaus ! Í Norðurporti eru  brosandi konur í öllum hornum, já og stundum karlar líka !

Svo eru kosningar á morgun, sem segir okkur að við getum sjálf valið þá sem við viljum sjá stjórna landinu á næstu misserum. Velji nú bara hver rétt fyrir sig og sína Ninja

Lífið heldur áfram, stöndum saman Smile.

 

Spakmæli morgundagsins á vel við:

Hlátur með nánum vini eða

vinnufélaga nægir oft til að losa um

spennu og örðugleika í samskiptum.

Þá vitum við það og hláturinn lengir líka lífið - ekki satt ?

Veit af fólki sem er að finna sér atvinnugrundvöll í sumar á eigin spýtur og sendi baráttukveðjur og segi þó að á móti blási - ekki gefast upp - þetta er erfitt en "Öll él birtir upp um síðir " Vera staðfastur og trúr sinni sannfæringu er það sem gildir.

Megi helgin verða ykkur góð og njótið þess að hvíla lúin bein þið sem þess þurfið Heart

Segi eins og amma mín, pabbi minn og föðurbróðir enduðu alltaf sín sendibréf í gamla daga.

"Í guðs friði"

 


Gleðilegt sumar að norðan....

Gleðilegt sumar öll sömul !

Veturinn horfin á braut og sumarið heilsar á Akureyri með yndislegu veðri. Fuglarnir syngja og hvað er hægt að biðja um meira.

Takk fyrir veturinn og alla þá hjálp sem þið hafið veitt mér hér með uppörvandi orðum !

Megi sumarið verða okkur gott og gjöfult.

Njótið dagsins Heart


Góður fundur.....

....með vinalegum manni sem ætlar að taka borð fyrir allt sumarið í Norðurporti, þar sem ég ákvað að halda óbreyttri stefnu með Norðurport.

En það er augljóst að opnunartími mun breytast með komu farþegaskipanna. Þá er bara að bretta upp ermar enn og aftur Smile og gera sitt besta.

En það er gott að hafa góða með sér og sér í lagi þá sem eru að hugsa um ferðamanninn. Það mun verða nóg á boðstólum í Norðurporti í sumar af póstkortum og allskonar vörum til minningar um Íslenska heimsókn. Framtíðin ein ber svo í skauti sínu hvað verður um þennan rekstur minn - vonum það besta og þökk sé þeim sem veita honum áhuga !

Megi kvöldið verða ykkur ánægjulegt Heart


Síðasti vetrardagur....

Jæja - vetur að klárast og sumar að taka við Smile Mikið verður nú gott að taka upp léttari klæðnað og geta farið út á sumarskóm..... væntanlega ekki á morgun en fljótlega.

Þegar ég lít til baka var veturinn ekki harður en þó hann hafi í sjálfu sér liðið hratt þá finnst mér hann samt hafa verið langur enda hefur maður verið að upplifa og reyna svo ótalmargt og hefur safnað í reynslubrunninn ansi miklu - það er kannski þess vegna sem mér finnst hann hafa verið eins og nokkrir vetur samanlagðir Smile.

Ég er í dag að fara að hitta mann sem hefur mikinn áhuga fyrir Norðurportinu og koma inn í reksturinn- Ég hef verið að hugsa og hugsa ....en ég ætla að halda rekstrinum óbreyttum áfram eins og ég er búin að byggja hann upp og halda áfram í sumar. Mér finnst ég vera búin að leggja það mikið á mig í þessari vinnu að ég er ekki tilbúin til þess að fara að flækja það neitt meira. Loksins þegar hillir undir sumar og skipakomur og ferðafólk en skipin munu leggjast að næstum því í faðmi Norðurports. En alltaf er gott að hitta fólk og ræða mál en fyrst ég þraukaði þennan erfiðasta tíma þá held ég ótrauð áfram. Það er að mörgu leiti einfaldara að hafa þetta svona, fyrst það gengur. Eruð þið ekki sammála mér ? Þetta er svona litla afkvæmið mitt sem ég er búin að hlúa að sem mest ég má. Happy

Nú á að fara að merkja og laga til þarna fyrir utan og ég er búin að fá fánastangir til þess að setja í Norðurportsskiltið og svo verða að koma blóm og svona huggulegheit ! Einnig þarf ég að setja á skilti á nokkrum tungumálum upplýsingar um það sem þarna er innandyra....Er með góða konu með mér í þessu og að sjálfsögðu gerum við þetta með eigin handafli og af hjartahlýju !

Það er alltaf verið að spá og spekulera Wink

Spakmælið í dag verður að koma þó langt sé:

Hlauparar þyngja sig stundum

með lóðum, þegar þeir eru að

þjálfa, til að byggja upp vöðva.

Þegar þeir taka af sér lóðin

finnst þeim eins og þeir fljúgi !

Vandamálin eru eins og lóðin,

þau styrkja okkur andlega og

búa okkur undir næstu átök.

Mikið til í þessu.

Megið þið eiga góðan dag og styrkjum hvort annað á hverjum degi Heart

 

 


Margir að lesa, en fáir að segja neitt....

Þetta vekur mig til umhugsunar um það hvort ég eigi að læsa síðunni minni aftur og hafa hana bara fyrir fáa útvalda.

Hugsa það næstu daga. Stundum er maður líklega að bera óþarfa tilfinningar á torg.

En ég hef í gegn um öll mín ár haft gaman af að skrifa og það er eitthvað sem mér lætur betur en að tala. Líklega er það uppeldið að alast upp á Sauðanesi í einangrun og stundum í marga mánuði án  þess að hitta nokkurn mann nema heimilisfólkið. Það var mikið lesið, spilað hlustað á útvarp en fáir til að tjá sig við. Þess vegna var gamla dagbókin mín oft mín huggun ( sem ég er svo heppin að eiga ennþá) þegar ég vildi tjá mig og ég endaði oft dagana við skrif þó ekki væri nú alltaf margt að segja.

En bloggvinir og aðrir sem hér líta við, það væri gaman þó þið segðuð nú ekki margt annað en sæl og blessuð Wink ......

Knús til ykkar Heart

 

 


Til umhugsunar .....

Sem betur fer á ég vini og hugsandi fólk sem er í sambandi við mig frá gamla vinnustaðnum mínum. Mín nánasta firrum samstarfskona lenti í þeim kringumstæðum, í síðust viku, að maðurinn hennar veiktist mjög skyndilega. Ég frétti af því frá annarri firrum samstarfskonu minni sem lét mig vita af þessu í gærkvöldi. Þökk sé henni  fyrir það.

Þetta er enn einn þátturinn í því að vera sagt upp vinnu - Um leið og maður er farin,  þá er ekki eins og maður gleymi því að þar inni er fólk/manneskjur sem manni var og ER annt um.  Það verður samt ekki lengur aðlaðandi að skreppa í mat eða kaffi og ekki lengur í boði að taka þátt í uppákomum, sem þó þeir sem eru "löggildir eftirlaunaþegar" fá að gera og er boðið til. T.d. þorrablót/jólaskemmtanir/hlaðborð....... Maður er ekki lengur í  þessum hópi, og allt í lagi með það -eða ? Mér finnst þetta vera mismunun ! Auðvitað hefði verið skemmtilegra að lenda í þeim hópi.

En ég er bara peð sem ekki er með í leiknum lengur ! Samt hugsa ég oft til þessa fólks sem ég vann með og ég horfi á auglýsingar sem sína mér brosandi (auðvitað á maður að þakka hvert bros en....)andlit Landsbankafólks sem ennþá heldur vinnunni sinni (sem betur fer). Ég verð að segja að mér finnst auglýsingarnar frekar ósmekklegar hjá Landsbankanum, þegar horft er til þess, hversu margir hafa misst vinnuna sína í bönkum og öðrum fyrirtækjum undanfarið. Virka allavega neikvætt á mig og þá sem næst mér standa. 

Það var sagt við mig um daginn - "Rosalega eru allir eitthvað glaðir með áhugamálin sín þarna í L.bankanum, halda þeir að þetta sé eitthvað sem við viljum sjá eða þurfi að auglýsa sérstaklega "? "Væri ekki betra að kynna einhverjar jákvæðar nýjungar í bankanum, eitthvað sem hjálpaði manni í þessum þrengingum,  hitt kemur manni bara ekkert við, það er eins og verið sé að reyna að breiða yfir það sem liðið er - Skil þetta alls ekki. " Hjá mér varð fátt um svör enda ekki þarna í vinnu lengur.

Ég er samt alltaf í því ósjálfrátt að verja mína firrverandi vinnufélaga og taka upp hanskann fyrir þá. Enda er ekki við fólkið á gólfinu að sakast um hvernig fór.

En bankastarfsfólk á þó all mína samúð eftir að hafa upplifað sjálf skelfilegu dagana í vinnunni eftir bankahrunið. Vonandi þarf engin að upplifa slíkt og þvílíkt aftur !

Ef ekki væri fyrir manneskjur sem hugsa ennþá til manns nokkrum mánuðum eftir að maður hverfur á brott, væri maður algjörlega slitin úr tengslum við þá sem maður deildi annars áður mestum tíma sínum með ! (ætti þó ekki að kvarta mikið, margir sem halda sambandi við mig ..takk).

Eftir situr það að manni er ekki sama um það, hvað hendir þá sem unnu næst manni í áraraðir.

Knús og kossar til viðkomandi og vonandi fer allt vel. Hef hugsað mikið til þín ljúfan mín síðan ég frétti af þessu og óska þess eins að allt verði í lagi Heart

Munum að hugsa hvort til annars og um það að þó einn maður hverfi af vinnustað er hann ekki þar með sagt búin að gleyma öllum þeim sem þar voru og eru inni og öfugt sjálfsagt en mér finnst gott ef einhver lætur svo lítið að láta vita ef eitthvað bjátar á.

Ég kem þó sjálf nokkuð reglulega á gamla vinnustaðinn minn Smile 

Spakmæli í lokin bloggvinir mínir.

Kærleikurinn er mesta þörf mannsins

og jafnframt það besta sem honum er veitt.

Megi dagurinn vera ykkur góður ! Heart

Þið fyrirgefið - ég þurfti bara aðeins að gusa úr mér, varð svo leið þegar ég var að hugsa til þeirra frétta sem mér voru sagðar í gær. Heart

 

 


nordurport.is

Mig langar til að minna á að Norðurport er opið í dag og á morgun.

Er að hendast í sturtuna og bruna niður á Laufásgötu 1. Dásamlegur dagur, vaknaði við margradda fuglasönginn í morgun. Hvað er betra ?

Sjáumst ! Heart


Stórkostleg...

Endilega kíkið á þetta og heyrið og sjáið ótrúlegan söng ! Smile
mbl.is Hæfileikar leynast víða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litir og penslar....

Góðan daginn. Það kom loksins yfir mig þörf fyrir að mála. Í vikunni byrjaði ég aftur að mála að einhverju ráði, hef alltof sjaldan í vetur farið á vinnustofuna sem ég hef aðgang að ásamt fleirum. Einhvernvegin hefur allur minn kraftur farið í annað -  þá auðvitað aðallega Norðurport.

En þegar ég finn fyrir þessari þörf er eins gott að hella sér í verkefni. Að þessu sinni dró ég fram vatnsliti og fékk mér vatnslitablokk. Ég er núna búin að mála nokkrar myndir og held spennt áfram. Síðan ætla ég að drífa mig í að fara á vinnustofuna því þar á ég nokkra ómálaða striga og nýta þessa þörf sem virðist vera að hellast yfir mig.

Öfugt við marga aðra kemur þessi þörf til mín þegar sólin fer að skína, en margir segjast leggja penslunum á vorin. Mér finnst líka æðislegt að hafa trönurnar mínar á svölunum á sumrin og mála þar. Sé nú til með það þegar lengra líður. En ég er glöð með að vera byrjuð að einhverju ráði aftur !

 

 

Það verður gaman að sjá útkomuna þegar ég verð búin með þessa syrpu !

Annars bara helgin að skella á og þá verður nóg að gera. Gott mál.

Kíkið á nordurport.is og forvitnist um það sem þar verður um helgina.

Að síðustu eitt gott spakmæli:

Ásettu þér að gera eins gott og þú getur, fyrir

eins marga og þú getur, eins oft og þú getur

og eins lengi og þú getur. Smile

Eigið góðan dag við leik og störf !

Heart


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband