Skemmtilegar fréttir....

.... verða sagðar á þessari síðu seinna í dag. ??? Ég varð að gera ykkur smá forvitin. Málið snertir Norðurport og eru þannig að ég brosi hringinn í dag.

Er að fara á smá fund og segi ykkur því síðar fréttir af þessu !

Og ekki klikkar spakmælið í dag á 88.ára afmælisdegi mömmu minnar:

Stöðugur lærdómur er ein

leiðin að hamingjuríku og

farsælu lífi.

Njótið dagsins, kem hér síðar í dag Heart


Skrítin dagur....

Svo sannarlega var dagurinn í gær, skrítin í Norðurporti enda varla hundi út sigandi. En við mættum auðvitað þeir allra hörðustu ! Það komu fáir gestir en þeir sem komu stöldruðu við og skoðuðu það sem var á boðstólum. En við versluðum bara hvort við annað og drukkum kaffi í Kaffi Port, spiluðum tónlist og þetta var bara notalegur dagur. Ég ók þetta bara eftir minni í Norðurport í gærmorgun.

Spakmæli gærdagsins:

Guði lætur best að gera kraftaverk

þegar aðstæður eru ómögulegar.

Í dag fór ég í kaffi til Siglfirskrar nágrannakonu minnar sem nýflutt er í blokkina. Það var notaleg stund og gaman að spjalla við þær mæðgurnar, eftir smálabb með Dalí sem var ánægður að fá að fara inn úr snjónum og hitta skemmtilegt fólk. Happy

Spakmælið í dag:

Sannur vinur er ekki blindur á galla

okkar en vegna kærleika síns kýs

hann að líta framhjá þeim.

Svo er Vilborg á línunni og er að draga mig með til Póllands í maí.....það er líklega ekki aftur snúið því hún er búin að panta fyrir okkur. Daglegt nudd og allsherjar yfirferð á líkama og sál....ég þarf því að redda málunum og mikið held ég að ég hefði nú gott af því að drífa mig. Fyrir nú utan það að félagsskapurinn skiptir miklu máli - ég held við eigum eftir að hlægja okkur næstum í hel ! WinkEiginmaðurinn er bara hress með það að fá léttari konu heim á sál og líkama Wink Ég fer því í það að redda mér afleysingakonu í Norðurport seinni hluta maí mánaðar og er með eina góða í huga InLove

En áfram gengur lífið er að fara í bankann með afrakstur helgarinnar.

Eigið sem bestan dag Heart


Frekar kuldalegt úti....

Á Akureyri heilsar okkur í dag, hryssingslegt veður með ofankomu og skafrenningi. Eiginlega ekta veður til að kúra frameftir en....ég er að starta deginum og mæti í Norðurport klukkan 11:00. Aðeins færri sölumenn í dag en þó margir. Dagurinn í gær var afar fjörugur eftir hádegi og ég er mjög sátt Smile

Ég hitti eina góð vinkonu mína og hennar mann sem búa í Kópavogi sem eru hér fyrir norðan í nokkra daga og ætla ég að fá þau hjón í heimsókn til mín áður en þau fara suður aftur. Þessa vinkonu mína hef ég ekki séð í mörg ár og það verður gaman að hittast og spjalla um hvað hefur á dagana drifið.

Spakmæli gærdagsins kemur hér:

Börnin verða sjaldan eins og

við væntum - en það urðum

við ekki heldur.

Þið sem kúrið heima, látið veðrið ekki aftra ykkur frá að kíkja til okkar í Norðurport og gleðja okkur með heimsókn. Annars bara njótið dagsins, öll sem eitt Heart

 

 


Áfram heldur fjörið...

...það verður mikið um að vera í Norðurporti þessa helgi líka - sérstaklega á morgun laugardag.

Þið getið fundið allskonar varning og um leið og einhver hvílir sig eina helgi, kemur nýr sölumaður í staðinn. Prjónavörur, gamalt dót, bækur, ljósaseríur og skreytingar, fatnaður, nýr og gamall. Töskur, framleiddar hér á Akureyri. Belgískt konfekt, handmáluð kerti og kort, skart, snyrtivörur, ódýr sjampó og hárnæring, tannkrem með íslenskum fjallagrösum sem gera tennurnar hvítari. Harðfiskur, kleinur, soðið brauð og vonandi flatbrauð. Svo er það army.is - hermannafatnaður sem unglingarnir virðast hrífast af. Trévörur o.m.f.l.

Ekki má gleyma Kaffi Port, þar verður hægt að fá sér hressingu eins og alltaf og svo er auðvitað málverkasýningin "Lagt af stað....." sem hefur vakið mikla athygli, í Kaffi Port.

Sem sé alveg þess virði að koma og skoða, versla og bara sína sig og sjá aðra ! Smile

Hittumst hress í Norðurporti um helgina. Heart

 

 


Hvar endar þetta ?

Nær 17.þúsund manns á atvinnuleysisskrá ! Það er ekki skrítið að fólk óttist það að sjóðurinn tæmist í haust. Þetta er skelfilegt og margir sem fara á skrá með vorinu. Þar á meðal ég.

En maður heldur í bjartsýnina eins lengi og hægt er Frown

 

 

 


mbl.is 16.685 skráðir á atvinnuleysisskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig til hefur tekist......

Í október í firra kviknaði hugmynd í kollinum á mér.

Hugmyndin var markaðurinn Norðurport. Ég henti mér í verkið og flest af því sem ég setti á blað þessa daga, hef ég getað staðið við.

Að vísu er ekki allt það sem ég ætlaði mér þarna inni eins og t.d. vörur úr sveitinni, þar kemur heilbrigðiseftirlitið inn í, því allt það sem selt er matarkyns í Norðurporti þarf að vera unnið í viðurkenndu eldhúsi. Ég tók því til minna ráða og er að selja viðurkennda matvöru og stend því vaktina með þær þjóðlegu tegundir sem ég hef getað náð í. Harðfisk, kleinur, soðið brauð, flatbrauð og kartöflur.

Ég ákvað strax að vera með málverkasýningar og er núna sýning númer tvö í gangi. Þetta fannst mér skipta máli og einnig að þær sýningar sem þarna eru væru frá fólki sem er að byrja að feta þessa braut. Það hefur tekist.

Ég hefði viljað að útlendingar gætu kynnt mat frá sínum löndum en það er af áður töldum ástæðum heilbrigðiseftirlitsins ekki hægt. En í Norðurporti eru núna nokkrir erlendir aðilar að selja aðrar vörur.

Ég er samt að vonast til þess að geta verið með einskonar "þjóðarkvöld" þar sem gestum gæfist kostur á að smakka mat frá framandi löndum. Það er svona hugmynd sem er að gerjast með mér.

Einhvernvegin er þetta þó í meginatriðum eins og ég ætlaði mér. Kaffi Port er eitt af því sem ég setti niður á blað og er kaffihúsið á nýja staðnum fínt. En þar staðset ég myndlistarsýningarnar. Þann stað rekur Sólveig Bragadóttir og það er von okkar að hann vaxi og dafni.

Um síðustu helgi fékk ég það á tilfinninguna að aðsóknin væri stórum að aukast og þó hefur hún verið góð frá fyrsta degi. Ég var þó hrædd um að þessir erfiðu mánuðir, fyrstu á árinu yrðu e.t.v. ekki góðir en það var ástæðulaus ótti miðað við hvernig gengið hefur þessar helgar sem starfsemin hefur verið í Laufásgötunni. Það var líka rask að flytja í nýtt húsnæði svona skömmu eftir opnun.

Mín tilfinning er þó sú að þetta húsnæði henti betur fyrir Norðurport en húsnæðið á Dalsbrautinni sem var afar stórt og auðvitað of dýrt.

Svo eins og málin standa í dag er ég bjartsýn og vonandi gengur þetta vel áfram.

Ennþá er þetta sjálfboðavinna hjá mér en með aukinni aðsókn sölufólks er ég að vona að það geti breyst í framtíðinni - enda konan ekki á höttunum eftir einhverjum ofurlaunum Wink

En - áfram Norðurport og verið endilega dugleg við að kíkja á okkur um helgar. Allir velkomnir !

Svo opnaði ég dagatalið af handahófi og fékk þetta upp Smile

Ráð til farsældar: Byrjaðu

smátt, vertu fylginn þér,

sýndu þolinmæði og lærðu

af mistökum þínum.

Þá er þessari úttekt lokið að sinni.

Njótið dagsins Heart

 

 


Einkar ánægjuleg helgi....

Það var gaman um helgina. Mikið að gera og á laugardaginn var fullt hús sölufólks og gesta í Norðurporti - í gær var líka mikið rennirí. Ef þið farið nú inn á síðuna hennar Önnu Guðnýjar bloggvinkonu sem kallar sig ollana og er á bloggvinalistanum mínum getið þið séð skemmtilegar myndir frá helginni. Hún Anna er líka ein af sölukonunum í Norðurporti. Takk Anna mín - flottar myndir hjá þér.

Spakmæli laugardagsins á vel við þann dag:

Kærleikurinn opnar dyr þar sem

engar dyr voru fyrir.

Það var gaman að horfa á listamennina Dagbjörtu og Magnús bróðir minn vinna og sýningin þeirra er virkilega flott og vakti mikla athygli. Svo var auðvitað gaman hjá okkur að fá að hafa þau hjá okkur um helgina en eins og alltaf leið tíminn of hratt og þau óku á brott eftir hádegi í gær. En sýningin þeirra mun hanga uppi fram að næstu mánaðarmótum, okkur til mikillar gleði.

Harmonikkuleikarinn Jón Hrólfsson gladdi okkur með spili sínu á laugardaginn og lyfti það deginum heldur betur upp.

Í hádeginu á laugardaginn bauð Kaffi Port upp á heimalagaða blómkálssúpu og heitt brauð, og svo var auðvitað alla helgina hægt að fá sér þar kaffi, kakó og gott meðlæti.

Hulda mín og fjölskylda voru í skíðaferð hér fyrir norðan, svo við fengum þau líka til okkar í kvöldmat. En þau voru auðvitað fyrst og fremst á skíðum alla helgina.

Ég ætla að enda þessi skrif á spakmæli dagsins í dag:

Því skemmtilegra sem þér

finnst lífið þeim mun meiri

gleði muntu finna í því.

Takk, allir sem komuð á einn eða annan hátt að starfsemi Norðurports þessa helgi. Frábært samstarf, gott skap og samhugur er enn og aftur það sem skiptir mestu máli. Og það var gaman að hluti af fjölskyldunni minni fékk að sjá það sem ég er búin að vera að vinna að síðan í október. Mér sýndist þau bara vera glöð með það Whistling

Njótið vinnudagsins. Ég mun hvíla lúin bein í dag - en svo hefst aftur undirbúningur fyrir næstu helgi...........Heart....Mikið líður tíminn annars hratt !

 


Nóg að gera....

Helgin 28.02 og 01.03. Opið laugardag frá kl.11:00 - 17:00 sunnudag frá kl. 12:00 - 17:00

Mikið líður vikan hratt. Met aðsókn í Norðurport um helgina, kem ekki fleirum fyrir á laugardaginn.

Ný myndlistarsýning verður opnuð og harmonikkuleikari gleður okkur eftir hádegið. Kaffi Port með rjúkandi kaffi, kakó og meðlæti.

Þarna verður notaður og nýr fatnaður, Thailensk vara - mjög fallegar heilsárs ljósa seríur og silkiblóm. Trévörur og flott skart, snyrtivörur og handmálaðar styttur, sokkar, húfur og vettlingar, gamlar og nýjar bækur, harðfiskur, kleinur, partar, flatbrauð og kartöflur. Handmálaðar trévörur, handmálaðir steinar. Army á Íslandi byrjar sölu á hermannafatnaði ofl. Einnig sælgæti. Ódýr sjampó, hárnæring o.f.l.

Gamalt og nýtt, allt í bland - Svona eins og markaðir eiga að vera. Smile

Nánar um myndlistarsýninguna hér fyrir neðan. Einnig á norðurport.is

Meira síðar, njótið dagsins Heart


Sýningin "Haldið af stað...." í Norðurporti " Kaffi Port " opnar laugardaginn 28.02.

Næstkomandi laugardag þann 28.02. opna hjónin Dagbjört Matthíasdóttir og Magnús Hannibal Traustason sýninguna " Haldið af stað........" í "Kaffi Port".

Þau ætla að koma akandi norður á föstudaginn með um 30. myndir og standa vaktina sjálf á laugardaginn í " Kaffi Port ".

Mér er auðvitað málið skilt þar sem ég plataði þau norður fyrir tveimur árum á helgarnámskeið hjá Erni Inga ásamt Vilborgu systur en hann Magnús er bróðir minn Smile Eftiminnilegt námskeið og skemmtilegt.

Ég hafði fyrr um haustið komið til þeirra og séð það sem þau voru að dunda sér heima við að mála og unnu þá aðallega með vatnsliti. Hæfileikarnir leyndu sér ekki og mér fannst alveg tilvalið að kippa þarna aðeins í spotta og plata þau norður yfir heiðar. Á þessu helgarnámskeiði var unnið mikið og vel og þau skiptu þarna úr vatnslitum yfir í olíuliti. Síðan hafa þau haldið áfram að mála og sóttu námskeið í kvöldskóla Kópavogs síðasta vetur undir handleiðslu Ingimars Waage og héldu áfram undir hans handleiðslu í vetur í myndlistarklúbbnum "Litagleði ". Svo er hann Magnús auðvitað landsbyggðarmaður og ólst upp hér fyrir norðan á Sauðanesi við Siglufjörð.

Á sama tíma kveður sýningin "Af kind í mynd" sem hefur verið í " Kaffi Port " síðustu þrjár helgar. Við þökkum Friðriku Sigurgeirsdóttur fyrir ánægjuleg kynni og fyrir sýninguna sem við og gestir okkar höfum fengið að njóta. Flottar myndir unnar úr þæfðum lopa frá hennar eigin býli. Og frábær hugmynd.

 

Þessi mynd " Án titils " er eftir Magnús Hannibal Traustason. Og verður á sýningunni " Haldið af stað....."

 

 

"Kvöld " eftir Dagbjörtu Matthíasdóttur sem verður líka á sýningunni. " Haldið af stað........."

En sjón er sögu ríkari, þið fáið ekki að sjá meira firr en á laugardaginn !

Það er gaman að geta stutt við þá sem eru að byrja að fóta sig á þessari braut og halda sínar fyrstu sýningar eins og hún Friðrika var að gera og einnig þau Dagbjört og Magnús. Norðurport hefur einmitt það markmið, að styðja við bakið á þessu fólki.

Velkomin norður kæru hjón Wink

 


Vetrarloft...

Eftir að hafa verið inni í Norðurporti í dag í góðum félagsskap gesta og sölufólks, ákvað ég eftir góðan kvöldmat hjá mínum ektamaka að gleyma sjónvarpi og fara í göngutúr. Ektamakinn fór að horfa á Sporting/Benfica fótboltaleik og ég dreif mig út með húsdýrið.

Það var byrjað að hvessa, ég búin að forða öllu lauslegu inn af svölunum (enda veðurspá ekki beysin) og við drifum okkur út í vindinn sem gnauðaði hátt.

Mikið var það hressandi. Við gengum þessa fallegu leið niður göngustíginn við Glerána. Það var ekki köttur á kreiki ( sem betur fer, mitt húsdýr, viðkvæmt fyrir köttum) við mættum aðeins einum manni á reiðhjóli sem bauð gott kvöld og brosti á móti vindinum og okkur . Smile Jú, einum manni,síðar hálf villuráfandi með símann á eyranu í leit að réttu blokkinni og að rétta partýinu heyrðist mér.

Voffi minn fékk að losna aðeins við ólina sína og við gengum frjálslega áfram (blessunarlega auðan stíginn, sem hafði greinilega verið yfirfarinn af bæjarstarfsmönnum, takk fyrir það, lítil sem engin hálka) þvílík dýrð !

Allt í einu varð himininn sem hafði verið þungbúin framan af göngu,  heiðskýr...Líklega er hann að breyta um átt,  hugsaði vitavarðardóttirin af gömlum vana og staldraði við. Leit upp í himininn og starði á stjörnurnar tindra. Þvílíkt andartak ! Við vorum ein í heiminum um stund ég og hann Dalí minn og við hlustuðum á niðinn í Gleránni syngja fallegan taktfastann söng. Undurfallegt.

Ég hugsaði til vina og vandamanna sem yfirgefið hafa þennan heim og varð glöð í hjarta mínu vegna þess að ég trúi því að þeir svífi einhverstaðar þarna úti í himingeimnum, frjálsir og glaðir.

Svona andartök skila manni hressari heim og eftir klukkutíma göngu var ég endurnærð eftir daginn.

Og svo sagði spakmælið mér þetta þegar ég kom heim :

Vegferðin gegnum lífið getur

stundum verið þreytandi og

erfið en góður félagsskapur

gerir ferðina miklu

ánægjulegri. Réttu

samferðafólki þínu

hönd vináttunnar.

Ég spyr, hver vill ekki hönd vináttunnar ?

Dalí var vinur minn í þessari ferð og ég veit að hann hefði ekki yfirgefið mig, hefði ég dottið í hálku eða ef eitthvað annað hefði komið fyrir mig. Enda hefði ég ekki yfirgefið hann ef hann eða misst flugið á einhvern hátt.

Við erum of góðir vinir til þess. Það var líka gott að bæta fyrir það að ég hafði ekki verið með húsdýrinu mínu í allan dag. Við áttum góða stund saman.

Ektamakinn fær svo knús í kvöld Wink 

Megið þið vinir mínir eiga góða nótt og dreymi ykkur vel.

Einfaldleikinn í lífinu er stundum bestur Heart 

Dagurinn á morgun verður góður. Því trúi ég Sleeping

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband