27.1.2009 | 17:32
Til þess að gefa lífi þínu
gildi skaltu verja því til
þess sem skiptir máli.
Spakmæli dagsins í dag.
Líf mitt núna, bara að snúast um hið daglega líf og halda áfram með uppbyggingu Norðurportsins.
Fengum fólk í heimsókn þangað í dag sem leist bara vel á framkvæmdirnar.
Svo fæddust tvíburar í fjölskyldunni í dag, hún Drífa Þöll og hann Gunni eignuðust dreng og stúlku. Drífa er systurdóttir mín. Innilega til hamingju með litlu gullin ykkar Gleðilegar fréttir þetta.
Eigið gott kvöld dúllurnar mínar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.1.2009 | 07:31
Bros....
Spakmæli dagsins:
Hvað er Það sem engri annarri lifandi
veru er fært að gera nema manninum ?
Að brosa. Guð gaf manninum þá
einstöku gjöf að geta brosað.
Leiðum huga okkar að því að eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt.
Ringulreið í þjóðmálunum áfram og best að tjá sig sem minnst um það. Er einfaldlega ekki nógu mikill pólitíkus. En eins og hugur minn segir mér núna, vona ég að nýtt afl bjóði sig fram og þar verði menn með ferskar hugmyndir, svo alvöru uppstokkun geti átt sér stað. Allt hitt orðið þreytt og lúið og endalaust sami grautur í sömu skál, ef svo má segja.
Síðasta vika fyrir opnun númer tvö í Norðurporti að renna upp svo nú er að láta hendur standa frammúr ermum sem aldrei firr. Nú er það Laufásgata 1 ( áður Sjóbúðin á Akureyri). Dagurinn í gær nýttist ágætlega við gardínusaum og fleira. Enn er þó nóg að gera.
Njótið vinnudagsins kæra fólk
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.1.2009 | 12:14
Veit ekki...
...hvað er í gangi en er búin að vera slæm í vinstra hnénu, gat varla sofið í nótt fyrir verkjum. Kannski er ég búin að ætla mér um of en heilsan er betri í dag eftir heita bakstra og fótinn uppá púða í nótt + verkjalyf sem eru eitthvað sem ég tek ekki nema í algjörri neyð. Vona að nú fari starfsþrekið bara uppávið.
En ekki ætla ég að þreyta ykkur með "sjúkrasögum" Nóg af slíku í kring um okkur !
Förum hjónin í Norðurportið á eftir, ég get allavega saumað gardínur og José ætlar að ryksuga. Þar verður allt á fullu í dag.
Spakmæli dagsins:
Allar breytingar eru erfiðar
og geta verið kostnaðarsamar,
en séu þær til bóta en þær
dýrmætar þegar til lengdar
lætur.
Njótið sunnudagsins kæra fólk, meira síðar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.1.2009 | 10:02
Fall er fararheill.... ?....
Vaknaði bara spræk í morgun eftir góðan svefn í nótt. Er mikið að lagast í hendinni svo að öllum líkindum hef ég sjúkdómsgreint mig rétt og að um slæmt mar sé að ræða Sparaði mér 5 þúsund kall á því að fara ekki á slysadeildina í gær en var tvístígandi - fara - ekki fara ....Fór ekki !
En fall er vonandi fararheill og vonandi stend ég keik í næsta göngutúr
Skrítið hvað allt breyttist í gær á skammri stundu í þjóðmálunum og vonandi tekst leiðtogum stjórnarflokkana að komast yfir veikindi sín. Svo nú er erfitt að spá um framhaldið. Svo held ég líka að það verði erfitt að finna flokk til þess að kjósa í næstu kosningum, ekki auðvelt að treysta á neitt eftir allar þessar hremmingar. Ég væri til í að kjósa menn en ekki flokka ef ég mætti ráða. En það verður nú víst ekki hægt - svo maður verður bara að fylgjast vel með í kosningabaráttunni.
Spakmæli dagsins:
Góð samskipti byrja með
vinsemd og kærleika.
Stefnan tekin á Norðurport eftir hádegið og nú verður gert klárt í kaffistofunni (reyni að hjálpa eitthvað til). Svo kemur hún Friðrika Sigurgeirsdóttir í vikunni en hún ætlar að sýna ullarlistaverk sín í "Kaffi Port" en það er myndlist sem hún kallar "Af kind í mynd". Það verður spennandi að sjá verkin hennar og gaman að fá hana í bæinn en hún er bóndi í Bárðardalnum. Þetta dreymdi mig um að fá, utanbæjarfólk í bæinn til að sýna okkur afrakstur þess sem verið er að gera er í sveitinni.
Það er alltaf verið að bóka í plássin í Norðurporti og stefnir í góða helgi þann 31. janúar og 1. febrúar, þegar við opnum á ný.
Megi dagurinn og helgin verða ykkur ljúf og góð
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.1.2009 | 22:39
Nördin....
Var að fá slóð á dönsku Eurovision lögin þar sem Hera (okkar) syngur frábært lag...
http://www.youtube.com/watch?v=lRYDyC7RL1o&feature=channel
Og auðvitað slóðin á Porutgölsku undanúrslitin líka !
http://ww1.rtp.pt/wportal/sites/tv/festival_cancao09/votacao.php
Frú handlama hefur ekkert annað að gera í kvöld en að hlusta - en ég held þetta sé að lagast, hef sennilega marist illa - gef þessu aðra nótt, annars.............
Sofið rótt dúllurnar mínar...........Live goes on !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.1.2009 | 06:55
Hvernig við bregðumst við
því sem gerist í kringum okkur
er undir okkur sjálfum komið.
Spakmæli þessa föstudags og hittir í mark eins og alltaf.
Ég varð fyrir því óláni að detta í gær í hálkunni hér fyrir utan blokkina. Var að fara á kvöldgöngu með Dalí og það var eins og kippt væri undan mér fótunum og ég skall aftur fyrir mig og bar auðvitað fyrir mig hægri höndina. Lá þarna eins og auli, rennandi blaut og skældist til baka, frekar aum. Ég fann mikið til í nótt en held ég sé ekki mikið bólgin. Vonandi bara mar Má sko ekki við neinu svona núna !
Sökum stirðleika í hendinni læt ég þetta duga núna
Njótið dagsins kæra fólk og munum eftir kærleikanum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.1.2009 | 07:13
Nýr dagur....
Spakmæli dagsins:
Það sem lítur út fyrir
að vera leiðarlok er oft
bara beygja á leiðinni.
Það er ennþá mikið að gera í Norðurporti og sennilega verðum við búnar að þrífa sjö sinnum áður en yfir líkur í gær var verið að mála gólfið í kaffistofunni og mikið held ég að þetta verði fínt.
Vonast til þess að í dag hitti ég listakonu sem ég talaði við og við buðum að sýna í Kaffi Port. Það yrði hennar fyrsta sýning á sérstökum verkum ! Meira síðar um það mál.
Búið að auglýsa opnunarhelgina og fólk byrjað að hringja og bóka sig
Sunnudagurinn verður líklega allsherjar tiltektardagur og eldhúsið hjá Sollu gert tilbúið ! Þetta er spennandi og verður gaman þegar sölufólk er komið í hús. Það er reyndar einn fastur kúnni mættur á svæðið og farin að koma sér fyrir....
Hver dagur hefur ærin verkefni og gott að vakna og hlakka til vinnudagsins. Eins og áður er að mörgu að hyggja.
Eigið sem bestan dag kæru bloggvinir og aðrir sem hér líta við og munum að hafa nóg af kærleika til hvors annars í dag sem og aðra daga
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.1.2009 | 06:59
Táragas...
Var nokkuð annað að gera í stöðunni, þegar fólk er farið að fá útrás í því að grýta lögregluna, þá er auðvitað ekki um annað að gera en reyna að stöðva leikinn. Það er sárt að menn innan lögreglunnar slösuðust. Mótmæli eiga að vera mótmæli - ekki skrílslæti.
![]() |
Táragasi beitt á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
21.1.2009 | 07:13
Nætursvefninn ekki alveg vær og góður...
Ég vissi af mínu fólki á vettvangi í miðbæ Reykjavíkur og þegar ég var að reyna að sofna, var aftur að fjölga fólkinu í mótmælendahópnum. Þá vissi ég að þetta yrði mér og fleirum ekki svefnsöm nótt. Mér varð hugsað til maka lögreglumanna og barna sem biðu heima og allra hinna mæðra, feðra og skyldmenna þessa fólks. Mér leið illa og verð að viðurkenna að ég var hrædd. Maður sá þessar myndir úr fréttunum svífa fyrir augunum og óskaði þess eins að þessu lyki.
En svo veit ég líka að þarna var fólk sem söng og var glatt. Kom þó saman til þess að láta óánægju sína í ljós. En einhvernvegin fáum við sem heima sitjum ekki að sjá þá hlið. Það væri nú gott ef einhver fréttamaðurinn tæki upp á því að sýna okkur hina hliðina ! Gleðina - samstöðuna.
Eins og ég hef áður sagt hér, skil ég að margir eru reiðir en lögreglan er hluti af okkur fólkinu í landinu og er að sinna skyldustörfum sínum, til þess líka að vernda okkur hin. Ráðumst ekki að þeim með illsku. Það er ekki þessu fólki að kenna hvernig komið er.
Megi Íslendinga bera gæfu til að fara í gegn um þessa erfiðu tíma án þess að skaða meðborgara sína.
Spakmæli dagsins í dag á afar vel við:
Kenndu barninu þínu
með góðu fordæmi.
Svo ætlaði ég að tala aðeins um hrós, gleymum ekki að hrósa fólki fyrir það sem vel er gert við erum alltof spör á það. Eitt lítið hrós getur gert daginn mun ánægjulegri
Njótið dagsins kæra fólk og styðjum hvort annað á jákvæðan veg og munum eftir kærleikanum hvort til annars
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.1.2009 | 20:06
Stór dagur...
Mikil mótmæli við alþingishúsið og Barack Obama sór embættiseið vestur í henni Ameríku.
Það er einhver taug hjá mér til Ameríku eftir að hafa komið þangað eldsnöggt í haust. Svo á ég þar fjölmarga ættingja á vesturströndinni, afkomendur föðursystur minnar sem flúði landið okkar fyrir mörgum tugum ára ásamt sinni fjölskyldu og föðurbróður mínum. Það var þá þegar landinn fór í leit að betra lífi - þau voru í hópi vesturfara.(vonum að fólk þurfi ekki að flýja landið umvörpum núna). Þau komust vel af og þar búa afkomendur þeirra enn þann dag í dag.
Ég skil vel þessi mótmæli hér á landi en bið þess enn og aftur að engin slasist og að lögreglan þurfi ekki að takast á við mótmælendur - Gerið það - mótmælendur, mótmælum friðsamlega! En það hefur svo sem aldeilis ríkt langlundargeð íbúa á Íslandi. Ég frétti að dóttir mín og tengdasonur hefðu komist óslösuð frá þessum degi sem lögregluþjónar í Reykjavík. Ég er þakklát fyrir það.
Í Ameríku gleðst fólk yfir nýjum forseta sínum - það skil ég líka vel. Manni sýnist að þar séu að koma ný og skýr skilaboð til umheimsins. Þá hugsar maður fyrst og fremst til heimsfriðar.
Mættum við eiga von á einhverju slíku hér á landi. Skírum skilaboðum um réttlæti og bræðralag. Ég vil gjarnan ganga til kosninga í vor !
En látum friðarboðskapinn fylgja með - verum trú sjálfum okkur. Sköðum ekki aðrar manneskjur.
Megið þið eiga góða nótt
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)