6.1.2009 | 12:44
Klárt !
Norðurport hefur fengið nýtt húsnæði, nú þarf að láta hendur standa fram út ermum og gera hreint og undirbúa. Húsið hýsti áður til dæmis "Sjóbúðina" á Akureyri og er staðsett á góðum stað og er leigan nokkuð sanngjörn.
Nú er bara að undirbúa opnun númer 2 ekki seinna en þann 1. febrúar. Það verður nóg að gera á næstunni ! Eina ferðina enn En þetta húsnæði hentar mikið betur en það sem við skoðuðum í gær. Það er bara að bretta upp ermar og gera klárt. Frábært !
Meira síðar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.1.2009 | 09:04
Síðasti dagur jóla...
...Var að koma úr blóðprufunni og þá er það frá í bili. Svo kemur bara í ljós hvað verður næst á þeim bænum - eða þannig.
Húsið sem við skoðuðum í gær, var ekki alveg það sem ég hafði í huga, EN í dag fer ég og skoða annað hús sem gæti passað betur og er á góðum stað í bænum - og það verður vonandi í sæmilegu ásigkomulagi ! En verðið á Dalsbrautinni er of hátt, sér í lagi fyrir þennan árstíma.
Þið fáið fréttir síðar af þessari skoðun.
Spakmælið 6. janúar:
Eins vís og sólaruppkoman er
mun kærleikur Guðs vera stöðugur með þér.
Megi dagurinn verða ykkur ljúfur og góður
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.1.2009 | 17:50
Úbbs....
það hefur verið gestkvæmt hjá mér þessa helgina svo bloggið var sett á HOLD.
Var svo heppin að fá barnabörnin í heimsókn og helgin leið með ógnarhraða. Einnig voru fleiri ættingjar og vinir á ferðinni svo það var fjör.
Spakmælið þann 4. janúar var svona.
Gæfan liggur ekki á glámbekk
og bíður þess að verða
uppgötvuð. Þeir sem eiga trú
og þolgæði munu finna hana
líkt og falinn fjársjóð.
Spakmæli dagsins í dag:
Það er engin hamingja
í líkingu við þá gleði
sem fæst við að hlúa
að lífi annarra.
Svo verð ég að segja ykkur að ég fór að skoða annað húsnæði í dag vegna Norðurportsins, húsnæði sem er í þorpinu - nú er bara að bíða og sjá hvort það verður eitthvað álitlegt .....mætti líka aðeins á skrifstofuna í Sprotasetri..það er gott að komast í gírinn aftur.
Þar til á morgun, njótið lífisns
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.1.2009 | 12:24
Stutt í dag...
Spakmælið:
Viljirðu lifa hamingjuríku lífi skaltu byrja
hvern dag á að minnast einhvers
sem þú ert þakklátur fyrir.
Allt gengur vel hjá okkur, við Sölvi fórum út í rigninguna í morgun með Dalí auðvitað og komum öll hundblaut inn
Tinna fór á skíði með mömmu sinni og pabba. Svo höfum við bara verið að spila og rólegheit.
Eigið góðan dag
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2009 | 11:50
Hvað verður....
Góðan daginn.
Ég er búin að vera í sambandi við mann og annan útaf húsnæði fyrir Norðurport. Er með smá bakþanka vegna Dalsbrautarinnar sem kostar slatta, einnig kannaði ég annað húsnæði á Glerárgötunni sem er dýrara.....en er svo að kanna eitt enn sem gæti lofað góðu svona ef til lengri tíma er litið - sem sagt allt í skoðun ! Ekkert ákveðið - en það kemur.
Spakmælið :
Í upphafi árs skaltu hugleiða
hverju þú hefur komið til leiðar
í lífi þínu og vertu þakklátur,
en láttu ekki þar við sitja, heldur
settu markið enn hærra og þú
munt ná því.
Þau standa fyrir sínu - spakmælin.
Ég á von á Sölva mínum til helgardvalar, en hann er á leiðinni með Huldu og Tomma og fjölskyldu sem eru að koma í skíðaferð norður. Hann er að fara í fyrsta sinn einn að heiman og ég veit að það reyndist honum ögn erfitt að segja bless við mömmu og pabba en hann var spenntur. Svo hringdi kotroskin ung stúlka í mig í gær og kom sér beint að efninu.
"Amma, ein spurning. Get ég kannski gist hjá ykkur"? Svarið var einfalt "Elsku Tinna mín, þú veist að þú getur alltaf komið til okkar þegar þú vilt og að okkar er ánægjan " Svo það stefnir í barnabarna fjör um helgina. Nóg að gera, ekki leiðinlegt.
Njótið dagsins og góða veðursins
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.1.2009 | 12:31
Nýtt ár.............
Upp er runnin 1. janúar. Gleðilegt ár !
Við áttum rólegt kvöld hér heima hjúin og pössuðum uppá Dalí okkar sem var ægilega hræddur. Ég held við þurfum að fá róandi fyrir hann fyrir næsta gamlárskvöld. Hann skalf eins og hrísla innst inni í horni undir hjónarúminu og leið voðalega illa. Við náðum honum ekki út að pissa firr en kl. 3 í nótt og þá hafði hann ekki farið út síðan eftir hádegi í gær. Því alltaf var verið að senda upp eina og eina bombu. Um miðnættið vorum við saman inni í svefnherbergi með sjónvarpið á fullu og ljósin kveikt og allt dregið fyrir. Öðruvísi áramót, síðan við fengum hann. Við hjónin höfum aldrei verslað okkur flugeld síðan við byrjuðum að búa fyrir 18. árum. Það virtist hins vegar ekki vera "kreppa" í flugeldum á Akureyri í ár.
Nú er stefnan tekin á góðan göngutúr inn í sveit. Fallegur dagur, sem vonandi vísar á gott ár !
Spakmælið í dag:
Nýtt ár veitir ný tækifæri til
nýs og betra lífs. Nýttu þér
þau til fulls.
Það er hátíð í huga mínum á nýársdag, mér finnst þetta einn mesti hátíðisdagur ársins, þegar ég sleppi takinu á liðna árinu og byrja að horfa fram á veginn. Gamlársdagur er aftur á móti dagur fullur af söknuði og trega í mínum huga. En nú er nýja árið komið og við horfum fram á við.
Gleðilegt ár og takk bloggvinir og þið öll hin fyrir samveruna á blogginu á síðasta ári ! Þið hafið svo oft sent mér uppörvandi orð.
Njótið dagsins öll sem eitt.
Vilborg - fór í rosalegan góðan göngutúr eftir hádegi, hugsaði til þín og allra hinna í fjölskyldunni, það var stafalogn ég var ein í sveitinni með Dalí sem hljóp og hljóp. Ég horfði á hafið í logni og óskaði þess að tíminn næmi staðar. Þegar ég leit til suðurs, blöstu Súlurnar við umvafðar litum janúar sólar, var það nema von að ég hugsaði til þín ?.....Við komum heim endurnærð !
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.12.2008 | 15:18
Síðasta spakmæli ársins 2008....
Næsta ár gefur þér tækifæri til að sjá Guð
gera dásamlega hluti í lífi þínu. Feldu honum
hvern dag, láttu hann leiða þig og fylla þig
af kærleika sínum.
Á eftir stóru uppgjöri mínu um árið 2008, læt ég þetta nægja.
Gleðilegt ár !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2008 | 16:57
Áramótauppgjörið mitt.....
Árið 2008.
Uppgjörið mitt.
* Árið byrjaði eins og önnur ár hjá mér, með bjartsýni.
* Man ekki til þess að veður hafi verið mjög slæmt s.l. vetur. Allavega komst maður alltaf í vinnuna.
* Mæðgnaferð sem mínar dætur skipulögðu til Minneapolis var ákveðin í apríl og ferðina átti að fara í nóvember, tókum frá orlofið okkar og greiddum ferðina í maí.
* Fórum hjónin í fyrsta skipti til Vestmannaeyja með dóttur og tengdasyni ásamt þeirra börnum og henni Tinnu okkar í júní og áttum dásamlega daga hjá Fríðu. Það var mikil upplifun að koma til Vestmannaeyja og skoða bæinn og fá söguna beint í æð. Heimsóttum líka Drífu Þöll frænku mína sem þar býr.
* Fengum góða gesti í heimsóknir í sumar. M.a. kom Vilborg systir og við stunduðum svalamálun eina helgi og það var gaman. Mikil afköst.
* Veðráttan í sumar ekkert sérstök, komu þó nokkrir góðir dagar.
*Ketilásball í anda hippakynslóðarinnar var haldið á Ketilási í Fljótum í endaðan júlí. Þessu balli stóðum við Vilborg systir fyrir og undirbjuggum í nokkra mánuði. Hljómsveitin Stormar frá Siglufirði lék öll góðu gömlu lögin. Ballið heppnaðist frábærlega og veðrið var gott. Gátum skilið eftir nokkra upphæð til viðhalds Ketilásnum og vorum glaðar með það. Gugga frænka var gjaldkeri og stóð sig með mikilli prýði ! Og fólkið í sveitinni hjálpaði til. Gaman !
*Í ágúst fórum við hjónin síðan í sumarfrí og heimsóttum fjölskyldu mannsins míns til Portúgal. Dvöldum fyrst hjá Sollu systur í Montechoro á Algarve í tvo daga og eyddum síðan einni viku á Costa de Caparica í íbúð vinafólks okkar. Héldum síðan til Lissabon til fjölskyldumeðlima þar og þaðan til foreldra José í Medelim. Það var gaman að hitta fjölskylduna og vinina og allstaðar var tekið á móti okkur af miklum myndarskap. Teresa Sofia dóttir mannsins míns kom í heimsókn og var með okkur í eina viku hún kynnti okkur líka fyrir unnusta sínum honum Diego. Það var gaman að kynnast henni betur og hitta kærastann. Daginn áður en við héldum heim fæddist lítill drengur í fjölskyldu José og gátum við litið á hann fyrir brottför. Alltaf jafn gleðilegt að sjá lítil nýfædd börn. Fjölskylda mannsins míns er einstök eins og mín og maður þakkar af alhug fyrir það sem maður á.
* Ég veiktist illa af flensu þegar heim var komið og lenti uppúr því í allskonar rannsóknum. Eftirfylgni þess vegna átti að vera í desember en frestast fram í janúar, ekkert alvarlegt en það er einhver breyting á skjaldkirtli sem fylgjast þarf með.
* Bankahrunið í október. Erfiðustu dagar sem ég, sem bankastarfsmaður hef þurft að vinna í gegn um árin.
* Ferðin til Minneapolis, var farin í október. Það var barningur að ná í dollara en út fórum við samt og áttum fjóra góða daga mæðgurnar. Mjög skemmtileg ferð. Uppúr standa samræður og samvistir við dæturnar og það sem við gerðum okkur til skemmtunar utan verslunarferða sem þó voru nú ágætar svona í bland.
* Kom heim á miðvikudagsmorgni, 22. október, fékk upphringingu til mömmu og pabba í Reykjavík, síðdegis þann dag frá útibústjóranum á Akureyri. Ég var ekki ráðin til nýja bankans. Sjokk ! Var samt búin að vinna fyrir hann í tvær vikur. Grátur - í eyru útibússtjórans sem örugglega leið ekki heldur vel. Erfiðast við þetta fannst mér að fá fréttirnar í síma.
* Farið í bankann daginn eftir og kvatt. - Erfitt, eftir 27. ára starf hjá sama fyrirtæki.
* Heima í sorg og sút í eina viku, gerði hreina alla skápa eins og ég ætti lífið að leysa. Reyndi að fara mikið út að labba. Tók grát- gusur einu sinni eða tvisvar yfir fötunni með hreingerninga vatninu og grét síðan í koddann á kvöldin, reyndi að fela það fyrir mínum heittelskaða hvað mér leið illa, en tókst það auðvitað ekki. Hann umfaðmaði mig og hjálpaði á alla lund.
* Nokkrar firrum samstarfskonur mínar voru duglegar að hafa samband við mig, færðu mér gjafir, heimsóttu mig og buðu mér heim. Það gerði mér gott. Ég slitnaði ekki úr tengslum við þær. Það er þakkarvert.
* Fór að sækja um vinnu hér og þar og pantaði mér tíma hjá sálfræðingi. Lítil von um vinnu á þessum tíma þar sem allir voru frekar að draga saman.
* Fór ásamt Vilborgu systur á myndlistarnámskeið hjá Erni Inga eina helgi, mjög gaman hjá okkur og áfram mikil afköst. Það hjálpaði mér mikið á þessum tíma að fara á þetta námskeið og að fá systur mína norður var toppurinn !
* Ákvað að skella mér í rekstur Norðurports (hugmynd sem kom upp í huga minn þegar ég var á leið niður Borgarbrautina einn daginn og sá þar hús sem stóð autt að hluta. Ég var ekkert farin að velta fyrir mér, einhverjum rekstri sjálf. Það var svona eins og þessu væri hvíslað að mér). Þann sama dag hóf ég grimman undirbúning sem stóð næstu þrjár vikurnar. Hringingar í allar áttir, spurningar og svör... heimilið var eins og ein stór skrifstofa. Fékk góðan stuðning og pepp hjá sálfræðingnum mínum, ættingjum, eiginmanni og fleirum.
* Mætti síðar til bæjarstjóra Akureyrarbæjar með beiðni um fyrirgreiðslu um húsnæði og hjálp og greinagerð um framkvæmdaáætlun Norðurports.
* Fengum skemmtilega heimsókn þar sem þær systur Tinna og Hrönn komu norður og við fengum að gæta þeirra á meðan pabbi þeirra var á rjúpnaveiðum og mamma þeirra í prófum, þær dvöldu hjá okkur í þrjá daga og við skemmtum okkur vel.
* Fékk leigt húsnæði hjá Akureyrarbæ að Dalsbraut 1 og hóf starfsemi Norðurports þann 6. desember.
* Allt gekk upp, vel mannað af sölufólki og frábær byrjun. Kynntist aragrúa af góðu fólki. Telst til að allt að 100. manns hafi komið að sölu og skemmtiatriðum þessar helgar. Góð tilfinning að hafa stuðlað að atvinnu fyrir svo margt fólk á tæpum einum mánuði.
* Tinna mín kom norður og hjálpaði ömmu í Norðurporti eina helgi.
* Fékk inni hjá Sprotasetri á vegum Akureyrarbæjar, þeim leist greinlega vel á verkefnið, ég flutti inn á skrifstofu hjá atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar og uni hag mínum vel þar eftir hádegi á daginn og á von á allri þeirri hjálp sem þeir geta veitt mér næstu 6.mánuði. Þannig að skrifstofan mín flutti að heiman. Flott framtak þetta hjá Akureyrarbæ.
* Dóttir mín sem er lögregluþjónn í Reykjavík var bitin við skyldustörf ég skrifaði um það á blogginu og var það birt í morgunblaðinu. Fékk síðan góðar kveðjur frá yfirmönnum hennar en í greininni ræddi ég um að ofbeldi sem þetta væri engum til góðs.
* Útskrifaðist frá sálfræðingnum mínum henni Björgu Bjarnadóttur, eftir fjórar heimsóknir til hennar, en við ákváðum að eiga inni tíma eftir áramótin ef ég héldi að ég þyrfti á því að halda. Enda erfitt að slíta sig alveg úr tengslum við jafn frábæra manneskju. Þessir tímar hjá henni voru "bara" uppbyggjandi.
* Jólin. Kærkomin hvíld. Góðir dagar til hvíldar, lestrar, umhugsunar og íhugunar.
* Ellen vinkona frá Portúgal kom í heimsókn ásamt dóttur sinni henni Önnu. Áttum skemmtilegt kvöld saman.
* Hitti fulltrúa nýrra eigenda að Dalsbraut 1 þann 29. desember. Óskaði eftir áframhaldandi leigu vegna Norðurports.
* Mætti til læknis til þess að fara yfir stöðuna og áframhaldandi eftirlit, sem byrjar eftir áramótin.
* 30.des. Fékk að vita að væntanlega verður í lagi með áframhald vegna húsnæðis Norðurports á sama stað. Eftir á að semja um leigu og fleira.
* Upp úr standa þegar litið er yfir farin veg og árið 2008- stundir með fjölskyldum okkar og vinum. Það að fá að fylgjast með barnabörnunum vaxa úr grasi og kynnast þessum dásamlegu einstaklingum betur. Eiga foreldra á lífi sem búa enn í dag sínu eigin búi og eru andlega hress þrátt fyrir háan aldur. Geta litið stoltur um öxl og hugsað sem svo að maður hafi látið eitthvað gott af sér leiða. Þrátt fyrir stormasamt ár, er maður enn að hugsa um að gera betur og halda áfram í því verkefni sem Norðurport er. Ef ekki er rétti tíminn núna þá hvenær ? Það var líka frábært að kynnast öllu því fólki sem að Norðurporti kom. Ég fékk einstaka hjálp og það sannaðist að samstaða er það sem máli skiptir. TAKK ÖLL.
Maður verður að halda í bjartsýnina og vona það besta okkur öllum til handa. Það dugar ekki að hugsa endalaust um hið liðna, heldur horfa fram á veginn.
Megið þið eiga farsælt ár og þökk fyrir liðnar stundir. Við munum komast í gegn um öldurótið á nýju ári. Því trúi ég, þrátt fyrir allt..Og ég mun leggja mitt af mörkum til þess að nýja árið geti orðið okkur til farsældar. Ég er þakklát fyrir að hafa getað gert það sem ég gerði á árinu 2008.
Megi góður guð vaka yfir okkur öllum á árinu 2009.
Það er við hæfi að enda hér á ljóði eftir skáldið okkar Davíð Stefánsson. Úr ljóðinu
Í dögun
Er sálin rís úr svefnsins tæru laug
er sælt að finna líf í hverri taug
og heyra daginn guða á gluggann sinn
og geta jafnvel boðið honum inn.
----------
Í dögun verður öllum lífið ljúft,
sem líta upp og anda nógu djúpt.
Að allra vitum ilmur jarðar berst,
þó engin skilji það sem hefur gerst.
Davíð Stefánsson.
Megið þið njóta komandi daga og áramótin verða ykkur ljúf !
Bloggar | Breytt 31.12.2008 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
30.12.2008 | 07:10
Árið að verða búið....
Bíð enn frekari frétta af húsnæðinu ! Mig dreymdi eitthvað rugl og var andvaka um miðja nótt. Ætla því að reyna að lesa og lúra svolítið lengur.
En kíkti á spakmæli dagsins:
Lífið er stutt. Hvað gerðir þú
í gær sem þú vilt að þín verði
minnst fyrir ? Hvað ætlar þú
að gera í dag ?
Hm..góðar spurningar.
Góð Íslensk vinkona mín sem býr í Portúgal var hérna hjá okkur í firradag í mat ásamt dóttur sinni. Það var gaman að hitta þær og ræða málin. Þeim fannst skrítið að hér væri ekki snjór og eru að vonast eftir að hann komi áður en þær fara í byrjun janúar. Á meðan þær voru hér sáum við í Portúgölsku fréttunum að í norður Portúgal er allt hvítt ! En hver dagurinn á eftir öðrum hér heima með hlýindum og dásamlegu veðri.
Fer að lúra smá, reyna að lesa og hafa það huggulegt. Mæti svo hjá doktornum mínum kl.11.
Njótið dagsins
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2008 | 14:44
Óvissa....
Ég fór og hitti forsvarsmenn nýrra eiganda Dalsbrautar 1. Ég veit ekkert ennþá, þar sem þeir voru að fara að sýna fleirum húsið. Má vænta svars í dag eða á morgun ! Ég er eitthvað alveg ónýt og ekki að farast úr bjartsýni.
Það er einhvernvegin þannig með mig að þegar líður að áramótum verð ég frekar sorgmædd og full af söknuði. En þetta ár hefur verið mjög svo sviptingasamt hjá mér. Það hafa verið margar gleðistundir en líka stundir sorga og leiðinda. Aðallega þó söknuður vegna atvinnumissis og þess að missa tengsl við marga góða vinnufélaga og vini. Gleðin hefur verið þegar ég hef getað verið samvistum við okkar nánustu, börnin mín og barnabörnin og aðra fjölskyldumeðlimi og átt ánægjulegar samverustundir með þeim.
Einhvernvegin var ég ekkert farin að hugsa um komandi ár en smátt og smátt læðist að manni einhver kvíði fyrir því. Kannski vegna þjóðfélagsástandsins og allrar þeirrar umræðu þar að lútandi.
Ég vona svo sannarlega að ég missi ekki líka af því að geta haldið áfram að byggja upp það sem ég byrjaði á í desember - Norðurporti og öllu því góða fólki sem þar kom við sögu.
Þá opnaði ég dagatalið og þar stendur:
Hikaðu ekki við að fela
ókomna framtíð í hendur
Guðs, hann þekkir hana.
Ég ætla ekki að velta mér lengur upp úr leiðindum í dag - fer út að ganga og rjátla þessar óvelkomnu hugsanir af mér.
Eigið góðan dag Læt ykkur vita af gangi mála.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)