Áfram skal haldið....

Ég hef verið að velta fyrir mér framtíð Norðurportsins og vil trúa því að þetta gangi áfram. Ég fer á morgun í viðræður út af áframhaldi í húsinu hjá nýjum eigendum. Það væri mjög heppilegt að geta verið þar áfram, í stað þess að taka hlé, leita að nýju húsnæði og næstum byrja uppá nýtt Woundering þá þyrfti að flytja borðin og hellings vesen....en maður mundi nú lifa það af Wink. En desember mánuður hefur fært mér hellings reynslu og ég hef kynnst aragrúa af yndislegu fólki, bæði þar sem sölufólkið er og svo gestum og gangandi. Frábærar móttökur og skemmtilegir dagar.

Læt ykkur vita á morgun hvernig fer. Ef ég fæ þetta húsnæði áfram, ætla ég að hafa hlé fyrstu helgina í janúar og nota tíman af fullum þunga til þess að fá inn meira af matvælum og aðila sem eru tilbúnir til þess að vera ákveðið vissar helgar svo þetta verði öruggara á allan hátt. Og opna svo aftur með "pomp og prakt" aðra helgina í janúar 2009.

Sendið mér góða strauma, ekki veitir af !

Á Akureyri er dásamlegt veður, hlýtt og bjart og himininn skartar rauðum og bleikum litum þar sem desembersólin er greinilega að reyna að brjótast fram einhverstaðar á bak við fjöllin, sáum hana aðeins í gær í allri sinni dýrð !

Njótið dagsins og látið ykkur líða vel. Góður dagur til gönguferða Heart


Búin að rífa mig upp....eftir jólin....

...já, dagurinn í dag var svolítið skrítin í Norðurporti, varla "köttur " á  kreiki eftir jólin, erfitt að trúa því eftir allt fjörið fyrir jólin. En við sátum þarna nokkrar stöllur yfir kaffi og vöfflum að spjalli og fengum að heyra hinar ýmsu lífsreynslusögur - sem væru sko örugglega efni í heila bók. En allt var þetta í trúnaði sagt og ekki ætla ég að fara að bera þessar sögur á torg. En fólk hefur átt misjafna ævi - svo sannarlega og ég dáist að þeirri hreinskilni sem ég varð vitni að í dag ! Á Íslandi eru margar kjarnakonur, sem ekki gefast upp ! Þar sannaðist spakmælið að hluta til "Maður er manns gaman" en svo var líka eymdin með í för.  Ég hefði getað hlustað endalaust -  Ég vildi gjarnan koma þeirri konu sem sagði okkur svo margt í dag úr lífi sínu, í samband við góðan bókaútgefanda.

En ég vildi koma að spakmælinu sem dagatalið gefur okkur í dag:

Kærleikur, auðmýkt, bæn

og gott samband leysa

allan vanda !

Svo er það spakmæli dagatalsins  28des. (Ég veit ekki hvað ég verð árrisul á morgun og  mæti í Norðurport kl.13:00. Og ég ætla að vera búin að taka hér til fyrir hádegi og viðra aðeins út eftir jólin  þar sem von er á góðum gestum í mat til okkar annað kvöld).

Mikið af því sem þú sérð fer eftir því

hverju þú leitar að. Þú sérð það sem

þú vilt sjá.

Njótið kvöldsins, kveikið á kertum og hafið það náðugt og verið góð hvort við annaðHeart


Áfram skal haldið....

Þá er ég mætt aftur í Norðurport. Það er nefnilega opið í dag, þrátt fyrir það að hér verða fáir að selja. Það koma svona helgar og maður verður að reikna með því að stundum verði þetta svona.

Á mánudaginn hitti ég svo mann vegna áframhalds í þessu húsi og svo er að bretta upp ermar og tala við mann og annan og reyna að fá fleiri til að selja matvörur hér. En margir hafa líst áhuga á því, fólk og fyrirtæki sem eru nú þegar með leyfi heilbrigðiseftirlits.

Spakmælið er heima svo það kemur síðar.

 Á Akureyri er sunnanþeyr og hlýtt. Birtan að koma, himininn er fallegur og roðagylltur í suðri.

Hvað viljum við hafa það betra ?

Eigið góðan dag og endilega ef ykkur leiðist komið hér við, kaffi á könnunni og vöffludeigið tilbúið.

Sjáumst. Heart


Annar dagur jóla...

Nú var dormað aðeins lengur, er samt búin að fara út með Dalí og taka aðeins til. Jólaljósin loga og bókin bíður á borðinu.

Ég er að lesa bókina hennar Bryndísar Schram, svona ágæt framan af enda konan víðförul. Hún flakkar nokkuð aftur í tíma líka, ég var búin að lesa firri bókina svo það er svolítil endurtekning allavega á nokkrum stöðum, er nú samt ekki komin langt í bókinni ....svo bíður önnur bók sem ég fékk líka "Vetrarsól" eftir Auði Jónsdóttur. Maður er svo ríkur þegar maður á ólesnar bækur ! Mínar bestu afslöppunarstundir eru við lestur góðra bóka.

Stuttu fyrir jól las ég bækurnar "Karitas" og "Óreiða á striga" um listakonuna Karitas eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur. Frábærlega vel skrifaðar og skemmtilegar bækur, um ævi myndlistakonu. Þið sem ekki hafið lesið þær ættuð að verða ykkur úti um þær. Þvílík lesning, maður hlær og maður grætur örlög þessarar konu !

Okkur er boðið til skírnarveislu eftir hádegið, þar mun hún Katrín Salka Oddsdóttir formlega fá nafnið sitt. En amman og afinn eru vinir okkar, þau Billó og Sandra.

Spakmæli dagsins:

Við fyllumst auðmýkt við að

hugleiða hve smá við erum í

samanburði við Guð og enn

frekar þegar við skiljum að hann

skapaði okkur sem vini sína.

Njótið áfram hátíðarinnar kæru vinir og vandamenn, jólaljósin vekja manni frið og von Heart


Jóladagur.

Ég læt það ekki eftir mér að lúra fram að hádegi. Það er ekki hægt að missa af fallegri jólatónlist, njóta friðarins og hátíðarinnar. Er samt komin með sængina mína fram í sófa ásamt stórum púða. Ætla að njóta þess að lesa, kveikja á kertum og hlusta á þessa tónlist.

Við hjónin áttum yndislegt kvöld í gær og eftir gjafaflóðið, heyrðum við í mörgum fjölskyldumeðlimum, bæði hér heima og erlendis. Mikið erum við búin að hugsa til ykkar og sakna þess að hafa ykkur ekki nærri. Allir hressir og það er fyrir mestu. Við þökkum fyrir okkur Smile Dalí var yfir spenntur enda fékk hann fjóra pakka sem hann opnaði að mestu sjálfur, nú er hann alveg ruglaður í því að hverju hann á að leika sér og endaði með að taka allt góssið með sér undir rúm. Hann var eins og barn að farast úr spenningi og byrjaði svo að ýlfra við pakkastaflann. LoL

Spakmæli jóladagsins:

Á jólunum lítum við heiminn með

kærleika í huga. Þau eru tími til að

minnast þess að heimurinn byggist

upp af fólki eins og okkur og leitast

við að sjá þeirra innri mann. Það

skiptir ekki máli hverjir mennirnir

eru eða hvaðan þeir koma, allir

glíma við einhvern vanda.

Svo mikill sannleikur í þessu !´

Njótið áfram þessara yndislegu daga. Það ætla ég að gera, er farin uppí sófa að lesa. Og svo er það hangikjötið og rjúpurnar sem eftir voru í gær svona þegar líður að hádegi....nammi........

Gleðileg jól !


Gleðileg jól...

Upp er runnin aðfangadagur. Það er ekki hægt að segja að hann sé bjartur og fagur, allur snjór nánast farin og rok og rigning hefur verið í nótt. En aðfangadagur er alltaf notalegur hvernig sem viðrar, því það er gleðin í hjartanu  sem ræður för. Mér líður alltaf eins og barni þegar þessi dagur kemur loksins. Það er alltaf tilhlökkun fyrir kvöldinu, jólamatnum, hátíðleikanum, gjöfunum og jólakveðjunum Smile og þeim tíma sem jólin öll eru.

Jólin byrjuðu nú aðeins í gær, þegar ég sauð skötuna, var svo heppin að geta haft opið út á svalir, skatan var vel kæst og góð. Eftir kvöldmatinn sauð ég hangikjötið svo sá litli skötuilmur sem var fyrir hvarf.

Jólakveðja:

Sendi ykkur kæru bloggvinir, vinir og ættingjar.

Bestu óskir um gleði og frið um jólin.

Megi árið 2009 verða ykkur sem farsælast,

og allir góðir englar vaka yfir ykkur.

Með þökk fyrir liðið ár til þeirra dyggu lesanda sem hér líta við.

það hefur verið gaman að setjast hér niður og skrifa um lífið og tilveruna og þar sem þetta ár hefur verið sviptingasamt hjá mér þá hefur það gert mér gott að geta tjáð mínar tilfinningar hér. Meira um það í áramótauppgjörinu sem birtist á gamlársdag. Wink

Spakmæli aðfangadagsins:

Jólin eru tími kærleika því að

Guð er kærleikur.

Gleðileg jól.

Ykkar Margrét.

 

 


Portugalskur saltfiskréttur og fleira......

Góðan daginn.

Saltfiskréttur "Bacalau a bras".

700 gr. saltfiskur, soðin í nokkrar mín.

2.stórir laukar

3 hvítlauksrif

1. kíló kartöflur

4. egg.

knippi af steinselju. Pipar og 1 - 2 lárviðarlauf.

Afhíðið kartöflurnar og skerið í strimla (eins og verið sé að gera franskar kartöflur en mun mjórri strimlar) Steikið vel í feiti.

Skerið niður lauk og hvítlauk látið krauma í olíu þar til orðið er mjúkt. Setjið lárviðarlauf útí og takið soðin saltfiskinn og tætið í sundur stykkin (roðlaus og beinlaus) brytjið niður svolítið af steinselju og setjið saman við, hvítur pipar eftir smekk. Hrærið vel saman við laukinn, steiktar kartöflurnar settar saman við. Hrært saman. Takið hrá eggin eitt af öðru og hrærið saman við ( hitinn settur á lægsta straum) hrært vel þar til allt hefur jafnast vel saman.

Setjið á fat og stráið yfir saxaðri steinselju og svörtum ólívum ef vill.

Verði ykkur að góðu. Rétturinn er líka mjög góður daginn eftir kaldur. Þessi réttur er sívinsæll á mínu heimili, eftirlæti Ragga tengdasonar og Sölva Fannars Wink

Þessu lofaði ég Magnúsi bloggvini og vona að hann prufi réttinn og líki vel. Vonandi prufa fleiri. Þegar við hjónin erum orðið leið á steikunum og blessuðu hangikjötinu á annan í jólum gerir húsbóndinn gjarnan einhvern góðan saltfiskrétt handa okkur.

Spakmæli dagatalsins:

Það má alltaf sjá björtu hliðina

á öllu sem gerist og líka í hverri

manneskju. Einsettu þér að finna

hver hún er og þú munt fá nýja

sýn á lífið. Smile

 

Jólin eru að koma.............

Ætla að setja inn hérna jólakveðju til ykkar í firramálið.

Úti ýlfrar vindurinn, það er komin hláka og snjórinn að fara.

Ég ætla núna að bretta upp ermar, taka rjúpurnar og hamfletta þær og fara svo um íbúðina með sápuvatn í fötu þar til allt verður hér hreint og glansandi.

Skreytti "kærleikstréð" frá henni Boggu í gær og nær það næstum uppí loft þegar toppurinn er talin með. Það var næstum tveggja tíma vinna að setja á það og á því eru þrjár jólaseríur og allar mínar jólakúlur og dót !Smile Dalí minn var hinn þolinmóðasti en var farin að ýta á eftir mér í lokin, að fara nú að koma mér út að labba frekar en vera með þetta dund.

Njótið undirbúnings jólanna, það verður gott að fá sér skötu í matinn í kvöld Heart

 

 


Morgunstund gefur gull í mund.....

Það er svo mikill vani að vakna snemma að þrátt fyrir það að ég gæti nú lúrt eitthvað áfram, ákvað ég að byrja á einhverju sem þarf að gera á heimilinu. Það er alltaf eitthvað hægt að finna sér að gera á þessum árstíma. Rjúpurnar verða hamflettar á morgun og svo á ég eftir að gera góða helgarhreingerningu...ætla að njóta þess á morgun að vera heima á Þorláksmessu, hlusta á jólakveðjurnar eins og maður gerði í gamla daga heima á Sauðanesi. Það var alltaf svo notalegt að heyra allar fallegu kveðjurnar sem fólk var að senda til vina og ættingja og svo jólalögin sem spiluð voru inn á milli. Stundum bárust jólakveðjur til okkar á nesið og þær yljuðu okkur í fámenninu við nyrsta haf.

Það streyma alltaf fram fallegar minningar frá bernskujólum þegar líður að aðfangadegi. Fátt er börnum mikilvægara veganesti. Ég vona allavega að ég hafi gefið mínum dætrum góðar minningar um jólin svo þær geti minnst bernskujólanna með gleði í huga. Í uppeldinu lærði maður að leggja alúð við þessa daga og gera þá sem ánægjulegasta.

Lítil minning:

Sauðanes. Klukkan að verða sex á aðfangadagskvöld, það hafði verið  lokað inn í stofuna allan daginn, við vissum að þar höfðu mamma og pabbi kvöldið áður skreytt litla jólatréð okkar. Fjölskyldan var komin í sparifötin. Þegar kirkjuklukkurnar í útvarpinu byrjuðu að hljóma opnuðu foreldrar okkar þar inn, kveiktu ljósin á trénu og við börnin tókum andköf. Litla gervijólatréð með rafmagnskertunum glitraði fyrir augum okkar. Þvílík og önnur eins fegurð. Allir settust síðan og hlustuðu á aftansönginn í útvarpinu og það var ekki vinsælt að hafa hátt því við áttum að hlusta á innihald predikunarinnar og njóta sálmasöngsins. Þetta var alltaf mjög hátíðleg stund. Jólin voru komin í húsinu við hafið.Smile

Ég hugsa til foreldra minna sem nú eru að leggja af stað  með rútu frá Reykjavík, norður á Sauðanes, systkina minna þriggja sem búa í Reykjavík, Sollu systur sem er í Portúgal, Jonna bróður á Sauðanesi og fjölskyldna þeirra. Dætra minna sem báðar búa í borginni með sínum fjölskyldum - vonandi verða þessi jól okkur öllum sem ánægjulegust.InLove

Spakmæli dagatalsins 22. desember.

Sannkallað stórmenni veit

að það kom ekki sjálfu sér

til metorða, heldur deilir það

frægð sinni með þeim sem

stóðu á bak við það.

Njótið dagsins vinir og vandamenn Heart


Jólafrí....næstum því.....

...já, bara að skreppa í bankann á morgun og svo bara að dúlla inn jólin.

Það var frekar rólegt í Norðurportinu í dag, en allir í góðu jólastuði, við settum upp jólasveinahúfur og strákarnir niðri sáu um að spila jólalög, bara fínt.

Ég var að koma fyrir jólatrénu góða úr sveitinni og kemur það vel út, mun skreyta það á morgun.

Ein sölukonan í Norðurporti gaf mér fallegan jóladisk með kerti og svo er handmálaða kertið frá henni Guðfinnu komið á góðan stað. Gaman að eiga svona minningar um skemmtilega daga sem verið hafa í Norðurporti á aðventunni.

Svo er bara að horfa fram á vegin og vona að árið 2009 verði okkur gjöfult og að við getum haldið áfram.

Spakmæli dagatalsins í dag er svona:

Sönn farsæld getur aðeins átt sér

stað í samfélagi við Guð.

Megið þið eiga góðan nætursvefn og gætum áfram hvors annars Heart Góða nótt.


Laugardagur til lukku....

Halló.

Spakmæli dagsins.

Tilgangur lífsins er ekki að

skapa efnisleg verðmæti heldur

að skapa gott líf.

Dagurinn í Norðurporti var góður, mikið af gestum og sölufólki. Ég var mjög glöð yfir því hvernig til tókst. Geislabandið sló í gegn og kaffið og kakóið hjá henni Sollu var vinsælt. Norðurport bauð síðan sölufólkinu upp á vöfflur í dagslok að gömlum sveitamannasið, yndislegt að hitta sölufólkið eftir erilsaman dag og kynnast því enn þá betur.

Er nokkuð betra en sú gleði sem til verður að loknum góðum vinnudegi, mikið sofnar maður þá rótt.

Takk öll, sem þar komuð við sögu. Skemmtilegt fólk á öllum aldri, úr sveit og úr bæ, að selja fallegt handverk sitt, notuð föt, gamalt dót eða nýjan fatnað, gott í gogginn og allt mögulegt.

Hún  amma mín elskuleg sagði svo oft, ef verið var að tala um annað fólk á einn eða annan hátt "Öll erum við manneskjur". Þessi setning hefur fylgt mér í gegn um lífið. Amma var lömuð að hluta til frá 30 ára aldri eftir lömunarveiki. Lífsglaðari konu hef ég hvorki ekki hitt firr né síðar, nema ef vera skyldi Vilborgu systur sem glímir við MS sjúkdóminn en hún er AFAR lifandi manneskja, þrátt fyrir allt. Hún hefur hjálpað mér mikið í sambandi við Norðurport.  Það var hún sem fann upp þetta frábæra nafn á portinu og er alltaf tilbúin til að hlusta á mig og fá fréttir af því sem gerist þar. Wink

Það var skemmtilegt í dag og  þegar hljómsveitin "Geislabandið" hóf að spila( maðurinn minn hann José spilar með þeim á trommur) þá steig á stokk með þeim, maður frá Ólafsfirði sem hefur verið að spila með þeim um tíma, ég vissi ekki neitt um hann en Þegar að hann vissi hvaðan ég var spurði hann eftir Sollu systur, en þau höfðu skrifast á og hist á Ketilásböllum á árum áður.....Maðurinn minn sagði ...hjúkkett....gott að það varst ekki þú LoL en Solla, ég átti að skila kveðju til þín....................tölum saman síðar.

Þegar ég var að enda við þessa færslu í kvöld kom til okkar góð vinkona færandi hendi með jólatré að gjöf handa okkur úr skóginum "heima" Flott gjöf það..Við sungum saman nokkur lög - hún er snillingur á gítar, við borðuðum hákarl og harðfisk og fengum okkur einn bjór. Takk Bogga mín. gaman að sjá þig !

Meira á morgun, sofið rótt Heart

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband