Jólunum bjargað.....með skötunni.....

....er búin að fá rjúpur, og með þeim verður hin ómissandi bláberjasulta frá henni mömmu og auðvitað brúnaðar kartöflur og hin frábæra rjúpna soðs sósa í matinn á aðfangadagskvöld . Ég Verslaði svo í Norðurporti í dag, harðfisk frá Darra Grenivík og hákarl og svo punktinn yfir iið SKÖTU, sem ég elda að Vestfirskum sið á Þorláksmessu. Og ég bý líka svo vel að eiga vestfirskan hnoðmör með skötunni, einnig frá henni mömmu geymda í frysti og þá geta jólin komið.

Mér er meira sama um kökur og konfekt en skata á Þorláksmessu og rjúpur á aðfangadagskvöld + hangikjöt frá Kjarnafæði á jóladag með góðu laufabrauði og uppstúf, nammi nammmm.

Vegna uppruna mannsins míns sem er Portúgalskur erum við oftast með góðan saltfiskrétt á annan í jólum. Það er sagt að portugalir eigi yfir 300 uppskriftir af saltfiskréttum og það sem minn maður hefur eldað úr saltfiski fyrir mig og mína hefur aldrei klikkað.

Fengum nokkra jólapakka í dag, þar á meðal fékk ég kort og pakka frá gamla vinnustaðnum mínum, hefði ég verið heima hefði ég beðið um að hann færi beina leið frá mér til mæðrastyrksnefndar en þar sem hann var komin inn á borð þegar ég kom heim, mun ég sjá um að koma honum til þeirra sem á þurfa að halda meira en ég. Við erum búin að fá hangikjöt frá vinnustað mannsins míns og þar sem það nægir okkur hjúunum, væri gott að koma þessu kjöti til þeirra sem ekkert hangikjöt eiga þessi jólin. Ég þekki reyndar ungt par sem er nýbyrjað að búa og á ekki mikið. Því ekki að gefa af því sem maður hefur nóg af, það er auðvitað hægt að frysta kjötið en gott að geta glatt einhvern sem lítið sem ekkert hefur þessi jólin. En takk samt, fyrir að muna eftir aumum firrum starfsmanni, þetta var nú algjör óþarfi. Ef einhverjum finnst ég kaldhæðin þá þeir um það. Wink 

Annars hélt ég að svona munaður væri ekki lengur inni í myndinni, allavega hafði maður heyrt það að fyrirtæki myndu spara slíkt við sig á þessum síðustu og verstu.

Dagurinn í dag var svona prufudagur á föstudegi í Norðurporti, frekar róleg umferð fólks en gaman, því við kynntumst öll betur og kaffið og kakókið hennar Sollu og auðvitað vöfflurnar hlutu góðar undirtektir ! Smile

Dagurinn á morgun verður fjörugri og mun fleira sölufólk að selja.

Hvíldin vel þegin eftir langan vinnudag.

Sofið rótt og eigið góðan nætursvefn Heart

 


Nýr dagur...

Fyrst spakmæli dagatalsins í dag sem er:

Ánægður maður nýtur útsýnisins

þótt hann verði að fara krókaleiðir.

Ég er nokkuð ánægð með dagsverkið í gær og sé fram á hugguleg jól hjá okkur hjónakornunum. Þó ég verði lítið heima firr en á mánudag verður þetta bara fínt. Ég bað sjálfa mig um frí á mánudag og þriðjudag og held að það gangi að mestu, þarf bara að skjótast í bankann á mánudaginn og fer ekki á skrifstofuna firr en eftir jólin. Þá verður nógur tími til að klára rest.

 Er í umræðum við nýja eigendur húsnæðisins þar sem Norðurport er og hef nokkuð góða von um áframhaldandi veru þar Smile Kemur í ljós. Kaffi Norðurport kemur bara vel út og við Sólveig kláruðum að gera allt klárt fyrir það í gærkveldi.

Nokkrar skemmtilegar nýjungar koma inn um helgina og það er ánægjulegt að Plastiðjan Bjarg, Iðjulundur kemur til okkar á laugardaginn og selur kerti og fleira fallegt og kynnir sína starfsemi. Svo verða t.d. til sölu pólskar jólakúlur og einnig pelsar...í bland við svo margt annað skemmtilegt. Eins og áður, gamalt og nýtt en þó fleira af nýjum hlutum. Einnig koma Laufey og hún Hrönn með þæfðu ullarvörunar sínar, Telma með skartið fína, Sísí með sínar ullarvörur, hárskraut ásamt fleiru, t.d. sparksleðana vinsælu. Sigrún með leirvörurnar og fínu húfurnar. Bára með mokkavörurnar, Rósa með glervörunar og Helen með sitt skart og jólahjörtun flottu. Snyrtivörurnar verða á sínum stað, einnig harðfiskurinn og hákarlinn frá Darra og svona  mætti lengi telja.

Þannig að við búumst við mikilli umferð hjá okkur um helgina.

Njótið áfram undirbúnings jólanna, þar til næst hafið það gott Heart

 

 

 

 


Gömlu jólavinirnir....

Góðan daginn.

Það er árla morguns og ég er að leggja drög að deginum.

Ég hef nefnilega ákveðið að taka til hendinni hér á heimilinu þangað til ég mæti í Sprotasetrið eftir hádegið. Í kvöld förum við Sólveig svo að gera klárt "Kaffi Norðurport".

Ég komst jólaskap í gær þegar ég loksins setti greni á svalahandriðið hjá okkur og kveikti á jólaseríu. Á eftir Þegar ég verð búin að þvo glugga og gólf , ætla ég á stefnumót  við gamla jólavini mína sem geymdir eru vandlega innpakkaðir í geymslunni, taka eitthvað af glingri hér inni úr umferð í staðin til að búa til pláss og stilla þeim upp, hverjum af öðrum, jólapúkunum mínum. Gömlum og lúnum og öðrum nýrri. Þar kennir ýmissa grasa, bæði í kertastjökum, sveinum og öðru glingri. Það er alltaf skemmtilegt að hitta aftur þessa gömlu kunningja sína Smile

Upp skulu jólagardínur í eldhús og annað eftir því.

Ég verð að segja ykkur að ég fór í skemmtilega heimsókn í gær. Ung stúlka sem er nýbyrjuð í Myndlistarskóla Arnar Inga var að afhjúpa sína fyrstu stóru mynd fyrir fjölskyldu sinni og ég tróð mér í hópinn þar sem "fugl" hvíslaði að mér að þetta yrði ég að sjá. Það var reglulega gaman að sjá viðbrögð fjölskyldunnar og þarna er greinilega á ferð mjög efnilegur nemandi. Kvöldið rifjaði upp gleðina af því þegar ég var í skólanum og upplifði þá ánægju að nema af honum Erni Inga. Það voru yndisleg ár sem ég minnist með mikilli gleði og ég er ennþá að elta uppi stutt námskeið sem hann heldur, því þau gefa manni svo mikið. Til hamingju Eyrún Smile Takk fyrir mig kæra fjölskylda.

Þá er að kíkja á spakmæli dagatalsins í dag.

Guð kann að meta auðmýkt

þína. Það gera vinir þínir og

vinnufélagar einnig.

Njótið dagsins og látið ykkur hlakka til jólanna Heart

 


Miðvikudagur enn og aftur....

Já, alltaf flýgur tíminn hraðar og hraðar. Vikan hálfnuð og bráðum komin stór vinnuhelgi. Það kemur svona hægt og rólega þegar líður á vikuna - spenningur fyrir henni. Það verður vonandi fjör í Norðurporti, föstudag, laugardag og sunnudag. Síðan ætla ég að vera í fríi hér heima á mánudag og þriðjudag og undirbúa jólin. Taka vel til og skreyta Smile

Spakmæli dagatalsins í dag er:

Það eru takmörk fyrir

því hve miklu við getum

afkastað - því skulum við

einbeita okkur að því að

gera það sem máli skiptir.

Megið þið eiga ljúfan dag Heart


Jólin nálgast....

...það styttist í blessuð jólin. Smile Það er svo gott þegar þau koma og brjóta upp hversdagsleikann og fólk getur hvílst og glaðst hvort með öðru.

Var að skila Norðurports auglýsingunni og láta vita um breyttan opnunartíma um næstu helgi og fleiri breytingar eins og Kaffi Norðurport og Geislabandið sem ætlar að spila eftir hádegi á laugardag. Nánar um helgarplanið á http://nordurport.is undir flipanum fréttir.

Annað: Ég er svolítið skelkuð fyrir hönd frænda míns Jóns Bjarka Magnússonar blaðamanns á DV sem kom fram í Kastljósi í gær með hljóðupptöku af samtali hans og ritstjórans vegna greinar sem Jón Bjarki vildi birta. Ég er mest skelkuð yfir því að þessi ungi efnilegi maður geti nú ekki gengið í friði um götur. Þarna kom ýmislegt fram sem vekur manni ugg. Munum að við þurfum að gæta hvors annars.

Spakmæli dagatalsins er í lengra lagi, set það hér inn.

Til þess að hreinsa gull

þarf það að fara í gegnum

bræðsluofn. Á sama hátt

leyfir Guð okkur að fara

gegnum þjáningar og

andstreymi til að hreinsa

hjörtu okkar.

 

Njótið dagsins. Heart

 


Mánudags viðbót......

....ég var að fá þær skemmtilegu fréttir að um næstu helgi verður hægt að fá veitingar í Norðurporti - eins og mig dreymdi um í upphafi. Það er kjarnorkukonan Sólveig ( við töluðum okkur saman um daginn um þetta mál) sem dreif sig til þess að fá leyfi og það er í höfn - kaffi, kakó, heitar vöfflur. Það verður flott í jólatraffíkinni. Svo alltaf er þetta að verða líkara því sem ég ætlaði mér. Svo kemur hljómsveit á laugardaginn og spilar nokkur lög á loftinu !

Bara flott !Smile

 


Mánudagsmorgun...

Góðan daginn !

Góð og annasöm helgi að baki. Dagurinn í gær þó aðeins rólegri en laugardagurinn, en samt fínn.

Sölufólkið ekki alveg eins margt en samt með  fjölbreyttar  vörur og það var skemmtileg stemming. Við Tinna vorum í Norðurporti í allan dag en hún fór svo heim með afa sínum uppúr fjögur til þess að elda matinn svo við gætum borðað áður en hún tæki flugið heim. Við rétt náðum þessu á hlaupum.

Það var sæl stúlka sem hélt heim á leið í kvöld með litlar gjafir í farteskinu til fjölskyldu sinnar. Það var gaman að sjá hvað hún var áhugasöm um alla hluti og hjálpsöm við fólkið. Að bera inn poka og pinkla og sendast fyrir mig og jafnvel leysa af í uppáhaldsbásnum sínum - þar sem allir flottu skartgripirnir voru seldir Wink

Nú tekur við undirbúningur fyrir næstu helgi og mikið búið að bóka. Það verður opið líka á föstudaginn frá kl. 13 - 19 og svo á laugardag og sunnudag. Líklega verðum við allavega til kl. 18:00 þá daga. Helgina milli jóla og nýárs er áætlað að hafa opið líka. Svo áfram heldur fjörið. Ég ætla að reyna að undirbúa jólin okkar hér heima bara eftir næstu helgi og e.t.v. eitthvað smá í vikunni ef tími gefst.

En spakmælið má ekki gleymast:

Himnaríki er staðurinn þar

sem öllu ranglæti er snúið í

réttlæti.

 

Eigið góðar stundir þar til næst og njótið dagsins Heart


Sunnudagsmorgun...

Það var fjör í Norðurporti í gær. Mjög margir gestir og mikil sala. Við Tinna áttum langan vinnudag sem byrjaði kl. 09 og var lokið uppúr kl.18:00. Ég verð að viðurkenna að ég var þreytt, enda legg ég mikið upp úr því að sölufólki líði vel á meðan það er að selja, það þarf að vera ánægt með staðsetningu sína....alltaf svolítið erfitt að raða upp, svo þarf að vera til kaffi, raða niður á næsta dag, alltaf fara einhverjir og aðrir koma í staðin, rukka inn fyrir daginn, hellings utanumhald. Bara gaman. Og sölufólkið stóð sig vel afar vel og allir glaðir, vona ég.

Það var gott að hafa Tinnu í snúninga og hún var rosalega dugleg að endast með mér allan þennan tíma og ætlar að koma aftur með í dag, ekki við annað komandi þó svo afi hafi boðið henni að sofa lengur og fara síðar niðureflir. Dugleg stelpa. Svo gat hún líka keypt jólagjafir handa vinkonum sínum og smá gjafir handa fjölskyldunni sinni, svo hún var alsæl í gær þegar við lögðumst þreyttar á koddann og rétt náðum að lesa bænirnar okkar, áður en við sofnuðum.  Afarnir gáfu henni pening í dag og hún er sko búin að ákveða að kaupa sér svolítið sætt fyrir þann pening í dag hjá henni Selmu sem er að selja svo fallegt skart í Norðurporti. Smile

Harðfiskurinn og hákarlinn slógu í gegn og Darri frá Grenivík mætir aftur á svæðið um næstu helgi, gat því miður ekki verið aftur í dag. Það verður opið líka á föstudag í næstu viku og því mikið umleikis áfram í Norðurportinu.

Það koma nokkrir nýir aðila inn í dag sem gaman verður að hitta og mér er ekki til setunnar boðið að fara að undirbúa daginn. Á meðan sefur fólkið mitt rótt en við förum að taka okkur til ég og ömmustelpan mín uppúr klukkan átta. Þá verðum við Dalí minn búin að fá okkur hressingargöngu. Tinna mín flýgur svo heim í kvöld.

Ég fékk tvær fallegar gjafir í dag frá elskulegri firrum samstarfskonu minni og einni af sætu sölukonunum, eigið þakkir fyrir . Síðan glöddu nunnurnar okkur með kökubakka áður en við fórum heim. Svo við komum heim með fullan poka af fíneríi. Wink

Í dag kemur svo harmonikkuleikari og spilar fyrir okkur milli kl. 14:00 og 15:00 Whistling Takk Ingimar.

Spakmæli dagsins:

Felldu líf þitt guði, treystu á handleiðslu hans og

þú verður ekki fyrir vonbrigðum.

Njótið dagsins kæru vinir og vandamenn. Heart


Laugardagur.

Þá erum við Tinna mín að fara að gera okkur klárar til þess að fara í Norðurportið. Það liggur vel á okkur og þetta verður ábyggilega góður dagur.

Það verður margt á boðstólum eins og ég hef talað um áður og það er gaman að segja frá því að það verða harðfiskur og hákarl frá Darra á Grenivík.

En það dugar ekki að drolla lengur.

Set inn spakmæli dagsins:

Fátt færir fólk nær hvort öðru en

einlæg afsökunarbeiðni.

Megið þið njóta dagsins og helgarinnar og gangi ykkur vel í jólaundirbúningnum. Heart


Annasamur dagur ....

Góðan daginn.

Þá er komið að annarri Norðurportshelgi. Vikan hefur liðið með ógnarhraða. Ég á eftir að þrífa niðurfrá og klára að ganga frá borðum. Ég fæ góða hjálparhellu norður í kvöld, hún Tinna mín, elsta ömmubarnið mitt var svo elskuleg að vilja koma norður með flugi í kvöld til þess og hjálpa mér. Smile Það verður gaman hjá okkur að vasast í þessu saman. Hún verður sko örugglega tilbúin að rétta sölufólkinu hjálparhönd líka.

Nú er hægt að panta bása og borð, á norðurport.is það er gott að eiga góða að, annar tengdasonur minn sá um að gera síðuna, fallega gert af honum. Set hér inn slóðina aftur. http://nordurport.is þetta léttir á símanum. Nokkrar sölukonur höfðu samband við mig í gær og voru ánægðar með síðustu helgi og sögðust hlakka til þeirrar næstu. Wink

Þetta er notalegur morgun, jólalög í útvarpinu sem minnir mig á að ég er ekki búin að gera margt fyrir þessi jól, að vísu voru flestar jólagjafirnar keyptar í Ameríkunni í október og þær eru allar komnar á sinn stað. Á eftir að kaupa smá, ég er allavega búin að sjá að eitthvað af þeim get ég keypt í Norðurporti. Það gefst vonandi tími í að skrifa á jólakortin eftir helgina og svo bara geri ég svona smátt og smátt jólalegt hjá okkur. Rjúpurnar komnar í hús og þá er nú mikið komið, hinn tengdasonurinn sér alltaf fyrir því Smile

Vil bæta því við að Rúnar Júlíusson verður jarðsettur í dag. Rúnar var eitt af goðunum mínum þegar ég var að alast upp. Það er sjónarsviptir af honum og hans tónlist. Hugsum til hans og fjölskyldunnar sem nú á um sárt að binda.

Spakmælið í dag er stutt og laggott:

Til að lifa lengi er nauðsynlegt

að fara sér hægt.

Eigið ljúfan dag þið sem kíkið hér við Heart

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband