Léttir.....

... að foreldrarnir eru komnir heim með drenginn sinn og fjölskyldan litla er sameinuð á ný.

...léttir að heyra að jafnvel sé komin einhver sjón á hægra augað hjá Ragnari Snæ.

...léttir að heyra að Ragnar Snær er farin að brosa og virðist ekki líða illa.

...léttir að Stellu líður betur og Ragga auðvitað líka þó maður viti síður hvað hann er að hugsa.

...léttir að vita hann með Stellu og drengjunum....

...léttir að það er hægt að gera svo margt með læknavísindunum.

...léttir að búa á Íslandi þar sem allt gengur að því er virðist hratt fyrir sig ef á þarf að halda - og hlutirnir virðast ögn manneskjulegir.

...léttir að vita að maður eigi svo marga vini sem hugsa hlýtt til manns þegar lífið er erfitt.

...léttir að hafa nánast aldrei þurft að hafa áhyggjur af heilsufari sinna nánustu.

En þó eitthvað bjáti á stöndum við saman sem einn maður og tölum saman og blásum út þegar á móti blæs, segjum það sem við viljum segja og látum það eftir okkur að gráta....það er eitthvað sem hjálpar og svo sá samhugur sem virðist vera í bæninni og því að hugsa vel hvort um annað...það hjálpar mikið að tala og hafa samband.

Þakka þeim sem voru með okkur þessa daga ....og látið mig vita ef ég get gert eitthvað fyrir ykkur !

Mér líður svo miklu betur í dag en í gær ! Sofum því rótt í nótt !Heart

 


Erfiður dagur............

Biðin var löng eftir fréttum og mikið var ég fegin þegar að Raggi hringdi loksins í mig eftir hádegi og lét mig vita að aðgerðinni væri lokið...........ekki er enn vitað hvort eða hversu mikla sjón Ragnar Snær fær á augað, en það var ský aftan á augnsteininum hans og hann fékk því nýjan.

Erfiðast var að heyra í Stellu minni sem var algjörlega samanbrotin þegar hún hringdi í mig um þrjúleitið. Það er erfitt að horfa á litla barnið sitt við þessar aðstæður og ekki alveg vitandi um hvort þetta var á hann leggjandi - en var þó reynt. En höldum í vonina - ég trúi því að á morgun verði farið að létta til, þegar slöngur og spelkur fara að hverfa og litli kallinn fer að vakna betur og þessi litlu börn braggast svo ótrúlega fljótt. Maður er bara svo bjargarlaus við svona aðstæður og hrikalega erfitt að vera svona langt í burtu og geta ekkert gert.

Held áfram að biðja og kveiki á mörgum kertum í kvöld. Takk fyrir að kíkja við hjá mér.


Ragnar Snær.

Núna klukkan átta fer litli kallinn í aðgerð á auganu sínu. Ég vaknaði klukkan fimm í morgun og gat ekki sofnað aftur. Hugurinn er allur hjá litlu fjölskyldunni sem á erfiðan dag fyrir höndum og stórt verkefni frammundan.....Það logar á kerti í Vesturíðu 14 núna og veit að það eru margir að biðja fyrir Ragnari Snæ...það geri ég líka...Heyrði í Stellu núna klukkan sjö, þar sem þau voru á leiðinni á sjúkrahúsið...

Jólakort, jólalög, kertaljós og rólegheit.....

Dagurinn í dag er svona íhugunardagur hjá mér. Kallinn minn er með löndum sínum að njóta þjóðarrétta frá Portugal og þrátt fyrir gott boð um að koma með, ákvað ég að vera heima með Dalí og skrifa á jólakort og íhuga svolítið....fór fyrst út með Dalí minn í góðan göngutúr og lét hann hlaupa svolítið, andaði að mér hreinu loftinu og gekk rösklega. Úti var frekar svalt og nokkur snjór.

Jólakortin voru tilbúin á borðinu þegar við komum inn og ég setti jólatónlist á fóninn og kveikti á all mörgum kertum. Yndislegt að skrifa svona í rólegheitunum á kort til nánustu ættingja og vina og rifja svolítið upp atburði ársins sem var mjög skemmtilegt hjá okkur fjölskyldunni þegar kemur að því að við hittumst nokkuð oft og þá er fyrst ættarmótið okkar á Sauðanesi ofarlega í huga......alveg frábært ! Meira af svona - takk.

Við Stella mín töluðum saman og maður er auðvitað mikið með hugann hjá þeim núna og fyrirhugaðri aðgerð á auga Ragnars Snæs litla í komandi viku að öllu óbreyttu.

Sendi út allar góðar hugsanir þeim til handa um að allt gangi vel og litla hetjan fái einhvern bata á auganu sínu........verð ekki í rónni firr en eftir þessa aðgerð...en er þó viss um að hún gangi vel !

Njótið aðventunnar vinir mínir og ættingjar, þökkum allt það góða sem okkur hefur verið gefið og tökumst á við mótbárur sem fyrir okkur hafa verið lagðar á lífsleiðinni....og treystum því að allt sem fyrir okkur er lagt er gert til þess að styrkja okkur hvort sem er í gleði eða sorg.

Sorgin er systir gleðinnar og þannig hefur það alltaf verið.......Lifið heil.

 

 


Jólin fyrir austan og telpurnar mínar....

Flestum jólum telpnanna minna þegar þær voru að alast upp eyddum við á Reyðarfirði, þar sem við bjuggum í mörg ár. Stella var á Þriðja ári þegar við fluttum þangað og Hulda byrjuð í skóla.

Ég fór með það í veganesti að heiman að jólin voru afar merkileg bæði í trúarlegum skylningi og einnig mikil hátíð sem þyrfti að vanda allan undirbúning að. Mamma gerði alltaf allt hreint og bakaði mikið og einning sá hún til þess að allir fengju nýja flík til að vera í á jólunum. Af þessu má ráða að ég hélt í hefðina og hef alltaf verið mikið jólabarn og vildi að dætur mínar fengju að kynnast jólum á þann hátt sem ég hafði vanist - ég komst upp með það og fyrir austan var firrverandi tengdamóðir mín Sigríður Eiríksdóttir, yndisleg kona sem ég var fljót að kynnast og ég gladdist þegar ég vissi að hún var með svipaðar væntingar til jólanna og hún mamma. Stundum bökuðum við saman fyrir jólin og höfðum samband eða heimsóttum hvor aðra oft.

En ég ætla að tala um jólin í Hvammi, lítilli kjallaraíbúð sem við leigðum á meðan við vorum að byggja húsið í Stekkjarbrekkunni.

Dagana fyrir jól var allt á fullu hjá mér að undirbúa jólin, en var jafnframt að vinna í Kaupfélagsbúðinni hálfan daginn...þar var nóg að gera þessa síðustu daga fyrir jólin.

Hulda og Stella voru spenntar hver á sinn hátt, því þær eru frekar ólíkar. Stella var afar spennt en Hulda lét það ekki eins uppi, en samt sá maður spennu glampann í augunum þegar þær trítluðu berfættar á aðfangadagsmorgun til þess að kíkja í skó í glugga, en einhverra hluta vegna var alltaf eitthvað veglegt þar þennan morgun, merkilegra en dagana á undan.

Við borðuðum í litlu stofunni og ef við fengum ekki rjúpur þá var hamborgarahriggur með brúnuðum kartöflum og öllu því sem tilheyrði hátíðinni - oftast bjó ég til ananasfromance í eftirrétt.

Við borðuðum á meðan messan var sungin og eftir það var vaskað upp og þá hjálpuðu dæturnar við að taka af borðinu og þá loksins eftir uppvask og frágang var hægt að setjast aftur inn í stofu. Stella iðaði í skinninu af spenningi og byrjað var að útdeila gjöfunum sem voru mikið fleiri en þær gjafir sem við systkinin á Sauðanesi höfðum vanist alla vega nokkur fyrstu jólin okkar þar, en tímarnir voru breyttir og meiri velmegun í landinu.

Hulda fékk mikið af bókum, hún hafði erft frá ömmu Huldu og mér kannski líka mikin bókaáhuga og var og er mikill lestrarhestur, Stella var meira fyrir dótið og tónlistina enda nokkrum árum yngri. Frá foreldrunum fengu þær rauða útigalla, Hulda úlpu og skíðabuxur en Stella heilgalla...allir voru glaðir og sælir og við mæðgurnar lásum í nýjum bókum fyrir svefninn. Held að þessi jól hafi dúkkan hún Adda Sigga sem svo var nefnd strax komið úr einum jólapakkanum - hún var lengi í uppáhaldi og er til ennþá, falleg dúkka eins og nafna hennar var. En eftir að búið var að opna gjafirnar stundi Stella mín upp þessari gull setningu sinni " Mamma. eru nú jólin búin ?".............Smile

Teknar voru myndir þetta kvöld, man að Stella var í grænrósóttum nýjum kjól með hvítum kraga og Hulda í köflóttum kjól með belti en kjólana hafði mamma mín sent þeim en hún sá alveg um jólafötin á þær nokkur fyrstu jólin þeirra. Alltaf voru þær ánægðar með kjólana sína. Á jóladag var farið út í nýju göllunum og farið í hádegismat á Heiðarveginn þar sem þeir fjölskyldumeðlimir húsbóndans sem bjuggu í firðinum komu saman, alltaf glatt á hjalla í hangikjötsveislunni hjá Siggu og Adda.

Já, jólin héldu áfram að vera skemmtileg.....og verða vonandi alltaf sú hátíð sem okkur var kennt að njóta, það sem ég man líka að fyrir mann var lagt var að á jólunum áttu allir að vera í góðu skapi og engin mátti fara í fílu og allir áttu að vera góðir hvorir við aðra. Gott veganesti það.

 E.S.

Smáminning um Trygg.

Tryggur hét hundur sem fólkið sem við leigðum hjá átti og sótti Stella mikið í hann, ósjaldan fékk hann að sofa í þvottahúsinu hjá okkur og þar fékk hann vatn og mat þegar hann vildi, stundum þegar ég þurfti að skreppa eitthvað smástund var nóg að Tryggur væri hjá okkur þá var Stella örugg með sig og hélt utan um hálsinn á honum.

Hann var mikið gæðablóð og þegar við fluttum í Stekkjarbrekkuna kom hann oft í heimsókn og svaf líka stundum þar í þvottahúsinu. Það var mikið sorg þegar Þuríður Briem eigandi hundsins hringdi í mig einn daginn og sagði mér að hann væri dáinn. Stella grét mikið. Lengi á eftir fannst mér hann standa við stofugluggann og dilla skottinu og biðja um að komast inn. Margar góðar minningar tengjast honum og Stellu.

Meira síðar, vona að þið hafið notið lestursins......Happy

 


Telpurnar mínar....

....næst ætla ég að tala um jólin og telpurnar mínar trítla um hús í bið eftir jólunum.....þar er líka margs að minnast............

Jól á Sauðanesi - seinni hluti....

" Á afskekktum bæ út við sæ......"

Já, aftansöngurinn var byrjaður að hljóma í útvarpinu...við vorum að ljúka við að borða, allir voru prúðbúnir. Eftir matinn átti að ríkja þögn því pabbi og mamma vildu hlusta á predikun prestsins og jólaboðskapinn...við settumst prúð en spennt og reyndum að einbeita okkur að messunni og fallegu jólasálmunum þrátt fyrir það að pakkar biðu þess að vera opnaðir og við værum frekar óþreyjufull.

Þetta tiltekna aðfangadagskvöld var veður mjög vont og erfitt fyrir pabba sem þurfti að fara í vitann á þriggja tíma fresti til þess að dæla olíu á vélarnar sem drifu áfram ljós og hljóðvitann. Rokið var mikið og ofankoma. Jólagjafirnar voru ekki opnaðar firr en að afloknum aftansöngnum og uppvaskinu.

Ég man að ég fékk þrjá pakka - rosalega fallega tuskudúkku með hár og slöngulokka, heima prjónaða sokka og vettlinga og bók. Gleðin var mikil yfir gjöfunum og saman fékk fjölskyldan líka sælgæti, konfekt og fleira frá ættingjum. Þá voru gjafirnnar skoðaðar í krók og kring. Dúkkan mín var í fallegum rauðum kjól með gula slöngulokka, ég strauk henni og athugaði hvort hægt væri að klæða hana úr kjólnum og ég man að bókin sem ég fékk var í plasti og ég vildi ekki taka það utanaf alveg strax, hún var svo falleg og ný. Praktísku gjafirnar sem prjónaðar voru af ömmu Guðfinnu féllu líka í góðan jarðveg - oftast var meira lagt í jólasokka og vettlinga, hún hafði prjónað á þá randir til punts.

Eftir að gjafirnar höfðu verið opnaðar heyrðum við að veðrið var að versna til muna....pabbi ákvað að brjótast út í vitann og hafði verið forsjáll því hann vissi að óveður var í nánd og hafði strengt kaðal frá húsinu og út í vitann til þess að hafa haldreipi á leiðinni úteftir (ca. 200 metrar voru á milli húsanna). Við reyndum að rína út í myrkrið og snjóstorminn til þess að sjá hvernig honum gengi en sáum lítið....það var sími í vitanum og hann hringdi heim í hús, að okkur fannst óratíma síðar til þess að láta okkur vita að hann væri komin í vitann heilu og höldnu og hann hafði þá líka ákveðið að sofa í vitanum um nóttina til þess að þurfa ekki að æða út í óveðrið ótal sinnum. Okkur þótti það mjög leitt en mamma ákvað að hafa kvöldið skemmtilegt samt sem áður, hitaði súkkulaði og þeytti rjóma og bar fram jólasmákökur, síðan las hún fyrir okkur og undir hljómaði jólatónlist á "gömlu gufunni."...við sátum þétt saman og hlustuðum...

Þrátt fyrir þetta sofnuðum við sæl og glöð hjá henni mömmu við vorum örugg hjá henni og ég man að ég brosti að dúkkunni minni og bauð henni góða nótt þar sem hún var í fanginu á mér.....en í bænum mínum var hann pabbi sem svaf á jólanóttina aleinn í vitanum á hörðum bedda.

Þegar ég vaknaði á jóladagsmorguninn, hafði veðrið lægt og pabbi var komin aftur heim í hús, hress og glaður og jólin okkar héldu áfram, það var spilað og lesið borðað og hlegið og jólin héldu áfram í húsinu á nesinu...........................Smile

Gaman að hugsa um þennan tíma núna á aðventunni.........


Inn á milli jólasögu....Ragnar Snær Ragnarsson.

Ákveðið hefur verið að Ragnar litli Snær fari í aðgerð á hægra auganu sínu í næstu viku. Ákvörðun um þetta var tekin í gær af læknum og foreldrum. Vonast er til að hann geti fengið einhverja sjón á auganu ( 10 % ) ? að henni lokinni en er þó ekki víst og ekki vitað firr en að aðgerð lokinni. Vel skil ég að þetta verði reynt og gefur þó von.

Þetta hafa verið erfiðir dagar sérstaklega fyrir Stellu mína og Ragga og Sölva minn og aðrir í fjölskyldunni hafa fylgst með og beðið fyrir þeim og reynt að styðja við bakið á þeim- verð að segja að nokkur tárin hafa fallið hjá mér og fleirum. Auðvitað eru læknavísindin mikil og góð og framfarir á öllum sviðum, en það er alltaf erfitt að hugsa til lítilla barna á leið í svæfingar og stórar aðgerðir.

Svo verður sá tími erfiður sem á eftir kemur, en ég veit að Stella og Raggi eru samhent og hörku dugleg og eiga eftir að standa sig vel í þessu sem öðru. Ættingjar og vinir höldum áfram að biðja fyrir litla Ragnari Snæ og fjölskyldunni og mikið verðum við fegin þegar þessi aðgerð verður lokið.

En Ragnar Snær er sterkur strákur og á eftir að standa sig. Um það er ég handviss.

Jólin eru á næsta leiti, friður og gleði svífur yfir vötnunum . Aðventan verður að vissu leiti afar sérstök hjá okkur þetta árið en styrkir okkur líka í trúnni á allt það góða og að góður guð vaki yfir litla Ragnari Snæ.

 


Jól á Sauðanesi....fyrri hluti....

...endur fyrir löngu......Úti var svalt og hríðarkóf, hljóðvitinn var í gangi þar sem skyggni var slæmt úti fyrir norðurlandi.

Ég vaknaði við það á aðfangadag að pabbi var komin á stjá, en hann var alltaf snemma á fótum. Mér leið ógurlega vel að geta kúrt áfram í hreinu og fínu rúminu mínu og hlustað á vindinn syngja í húsinu....AÐFANGADAGUR...enn var hægt að finna lyktina af hangikjötinu sem soðið var á Þorláksmessu þrátt fyrir skötuna sem var á borðum í hádegi þann dag....Allt var hreint og fínt, mamma hafði lagt nótt við dag við bakstur og hreingerningar og á kvöldin settist hún svo gjarnan við saumavélina og saumaði jólafötin á okkur stelpurnar og jafnvel buxur á strákana.

Spennan var mikil fyrir jólin og pabbi fór gjarnan hlaupandi yfir fjallið sem skyldi á milli Sauðanes og Siglufjarðar einhvern af síðustu dögum fyrir jólin til þess að sækja hina ýmsu jólaglaðninga, ávexti og annað sem tilheyra þótti jólum, stundum komu félagar í skátafélagi Siglufjarðar á móti honum upp á fjall, til þess að spara tíma sérstaklega ef veður voru válynd, svo hann þyrfti ekki alla leið í bæinn. Við hin biðum spennt eftir því sem hann dró síðan upp úr bakpokanum, jólakort og bréf frá ættingjum og vinum og svo allt hitt sem var líka spennandi - mesta furða hvað komist gat fyrir í gráa bakpokanum hans pabba....og jólalyktin sem barst með rauðu fallegu eplunum sem upp úr pokanum komu fullkomnaði undirbúning jólanna.

En aðfangadagur var runnin upp og eftirvæntingin lá í loftinu....frammundan var skemmtilegasti dagur ársins að mínu mati , þar sem allir fóru í sparifötin og hversdagslega amstrið við búskapinn var í lágmarki, farið var snemma í fjós og fjárhús, gefið ríflega og síðan skellti pabbi sér í bað og í sparifötin og allt var klárt fyrir aðfangadagskvöldið okkar. Í okkar veröld á Sauðanesi.....Ylmur af steiktum rjúpum fyllti loftið, jólakveðjur voru í útvarpinu og við biðum spennt eftir því að opnað yrði inn í stofu klukkan sex en þá fengum við loks að sjá ljósum skrýtt jólatréð sem mamma og pabbi höfðu skreytt nóttina áður meðan við krakkarnir sváfum....messan í útvarpinu byrjaði og jólin voru komin

" Á afskekktum bæ út við sæ"  .................

 

 


Lífið tifar áfram....

Er búin að vera frekar mikið utan við mig síðan ég fékk fréttirnar af litla Ragnari Snæ...hef vaðið úr einu í annað og ekki klárað neitt almennilega...í gær fór ég svo niður í banka að vinna, verið var að kveikja á jólatrénu á Ráðhústorgi og bankinn var opin í klukkustund áður og veitt var heitt kakó og piparkökur, einnig voru skemmtiatriði. Þar söng telpnakór jólalög og ég komst á eitthvað flug, allir voru glaðir og fengu sitt heita kakó með rjóma og jólin einhvernvegin settust að mér....komu bara svona .....

Í dag tók ég skurk og þvoði gardínur og hreinsaði glugga, setti upp jólaljós og kveikti á kertum og sendi bænir út til almættisins fyrir morgundeginum, þá fer litli Ragnar Snær aftur til læknis og fær annað álit - síðan er önnur skoðun á þriðjudagsmorgun - nánari en sú fyrsta - og önnur og fullkomnari tæki.

 Jólin koma brátt og ég er ákveðin í því að þau verða góð - friður í hjarta og sál er númer eitt og að allir þeir sem maður elskar upplifi þau þannig - hlakka til að fá Stellu, Ragga og synina norður og eyða með þeim jólunum.

Ætla ekki að kaffæra mig í einhverju "skrumi" nota það sem ég á og reyni að hlúa að fólkinu mínu og hafa það notalegt -  "Á jólunum er gleði og gaman.....

Ætla að setja hér inn fljótlega jólasögu frá Sauðanesi um það hvernig við upplifðum jólin í einangruninni sem þar var.....í minningunni voru allir glaðir og ylmur jólanna læddist svona að manni smátt og smátt og náði hámarki þegar pabbi kom berandi jólaeplin í bakpoka frá Siglufirði rétt fyrir jólin...þegar klukkan var sex á aðfangadag var opnað inn í stofu og við sáum jólatréð í allri sinni dýrð í fyrsta sinn....augun okkar ljómuðu, úti ílfraði stormurinn en inni var hlýtt og notalegt...jólaylmur í öllum hornum...

Það var þá. En held í gamlar hefðir og reyni að hafa jólin fyrst og fremst hátíðleg....hef verið erlendis um jól...en fann ekki jólin þar....þau voru HEIMA ! ´

Lifið heil og guð veri með ykkur

Magga

Væri samt til í að hafa báðar dæturnar og öll fjögur barnabörnin mín hér en.....


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband