27.11.2009 | 07:43
Erfiðir dagar...
Ekkert fær breytt því að elskuleg systir mín Solla er nú mjög veik og ekkert sem getur undirbúið mann fyrir næstu daga. Hef ákveðið að vera heima og láta mínar síðustu minningar um hana á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum fyrir skömmu, fylgja mér.
Bið algóðan guð að vaka yfir henni þessa daga, börnunum hennar og öldruðum foreldrum okkar sem eru búin að fara fimm ferðir til Vestmannaeyja á síðustu vikum. Þetta verður erfitt en munum að við eigum hvort annað að og getum styrkt hvort annað og gleymum ekki bæninni.
Guð veri með okkur öllum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.11.2009 | 20:41
Látum kertaljósin loga.....
Látum kertaljósin loga - biðjum fyrir Sollu minni sem er að berjast við illvígan sjúkdóm.
Reyndi að hringja í hana í kvöld en hún var ekki tilbúin til að tala við mig - eitthvað ekki liðið vel elsku systur minni.
Kærleiksknús til ykkar allra
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.11.2009 | 18:47
Vonin er eftir......
Hlustum á þetta undurfallega lag.
Hver verður nokkurn tíma tilbúin til þess að segja bless við ástvini sína ? Ekki ég !
Þess vegna heldur maður í vonina - endalaust !
Fallegur fluttningur -
Kærleikskveðjur til ykkar alla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.11.2009 | 09:29
Heimsóknin til Vestmannaeyja...
Við José tókum Herjólf út til Eyja á miðvikudagskvöldið - dálítill veltingur en allt í lagi, fór bara í koju og sofnaði. Það var gott að koma í hús til Drífu frænku og Gunna, hitta þau og Lúcý og tvíburana litlu Á fimmtudagsmorgun hitti ég svo loksins Sollu mína og það voru auðvitað fagnaðarfundir.
Við eyddum að mestu deginum með henni og síðan bættust foreldrar mínir, yngri systir og dætur mínar í hópinn ásamt auðvitað Drífu og Lúcý. Það var svo notalegt að vera þarna öll saman.
Við Solla náðum að spjalla svolítið saman og hún gerði mér ljóst að hún ætlar að berjast við þennan vágest af fullum þunga. Drekka heilsuteið og taka dropana sem Magnús bróðir útvegaði frá Englandi, Þar sem læknarnir telja sig ekki geta gert neitt meira. Við gátum líka hlegið og spjallað og áttum góðan dag.
Ég kvaddi hana snemma á föstudagsmorgun áður en við fórum í ferjuna með þeim orðum að við sæjumst aftur ! Á leiðinni heim var ég þreytt og dofin en afskaplega glöð yfir því að hafa getað farið í þessa ferð. Ég hugsa endalaust um hetjulega baráttu hennar og það sem okkur fór á milli.
Svo var líka svo gott að hitta alla hina ættingjanna og vera saman.
Bænir og styrkjandi hugsarnir sendi ég Sollu minni og krökkunum hennar og bið guð að vaka yfir okkur öllum á þessum erfiðu tímum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.10.2009 | 18:42
Fer til Eyja...
Ég er á förum til Vestmanneyja að hitta Sollu mína.
Það var auðsótt mál í vinnunni minni að fá að skreppa, svo ég fer á miðvikudaginn og kem heim á föstudag.
Gott að vinna á góðum vinnustað þar sem skilningur ríkir þegar svona mál koma upp - svo fékk ég líka að vita í dag að ég verð fastráðin hjá ÍP um áramótin. Ég er ótrúlega glöð, því mér líkar svo vel við vinnustaðinn og fólkið sem vinnur þar.
Það verður gaman og kvíðvænlegt líka að hitta Sollu. En þessa ferð verð ég að fara.
Stefnir í ferjuferð á miðvikudagskvöld út í Eyjar og til baka í land á föstudagsmorgun, aka svo beint heim.
Knús og kram í allar áttir. Sendið strauma til okkar systkinanna sem endalaust erum að tala saman og velta fyrir okkur stöðunni. Vonin er til staðar þó útlitið sé ekki gott.
Kærleiksknús
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.10.2009 | 09:41
Hugsanir á sunnudegi..........
Kæru vinir og ættingjar - sendum sterka strauma og kærleiksríkar hugsanir til Vestmannaeyja. Solla mín þarf styrk og góðar hugsanir. Hjá mér er kveikt á kerti og með minni barnatrú bið ég fyrir því að henni batni.
Elsku bræður mínir Mángi og Jonni, Dagga og Jón Bjarki. Góða ferð til Eyja í dag og færið Sollu fullt af faðmlögum frá okkur hinum í fjölskyldunni og segið henni að við komum fljótlega.
Stórt knús inn í daginn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.10.2009 | 20:34
Eigið góða nótt....
Megið þið eiga góða nótt og hugsum til þeirra sem eiga erfitt og eru að berjast fyrir lífi sínu.
Mikið eigum við hin gott að geta gengið til starfa okkar og lifað lífinu eins og venjulega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2009 | 20:26
Norðurport, Akureyri...
Endilega kíkið á nordurport.is og lítið á það sem þar verður um að vera um helgina. Allt á fullu ! :)
Sjáumst
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2009 | 20:08
Langt síðan síðast.....
Já, það er alltof langt síðan ég hef skrifað hér - er farin að sakna stundanna minna hér. En ég hef einfaldlega haft svo mikið að gera.
Það breytti auðvitað miklu að fá vinnu og mér líkar vel í nýju vinnunni sem er þó ekki nema til áramóta fyrir víst. En þegar maður hefur verið atvinnulaus í næstum ár, lærir maður að það er ekki allt gefið og er þakklátur fyrir hvern dag sem maður fær að mæta í vinnu. Svo ég ætla ekki að velta mér uppúr því heldur njóta hvers dags sem ég get mætt í vinnu og vera glöð með það. Svo - koma tímar og koma ráð, það er þó ekki alveg útilokað að ég verði ráðin áfram......kemur allt í ljós. Það er einmitt eitt ár núna síðan ég missti vinnuna eftir 27 ár í bankanum.
Svo á auðvitað Norðurport hug minn allan þess utan - allt í einu er ég farin að vinna alla daga vikunnar og kvöldin með ;) Þar er allt í uppsveiflu nú á haustdögum eftir frekar slakt sumar. Ég er mjög þrjósk og ætla að halda áfram þar í vetur í þeirri góðu von að veturinn verði okkur hagstæður - enda fullt af góðu fólki með mér sem vill að Norðurport haldi áfram. Í desember verður Norðurport eins árs og þvílíkt hvað maður hefur lært á þessu eina ári á rekstri Norðurports og kynnst mörgu nýju. Mér finnst að þörfin fyrir slíkan markað sé frekar að aukast en hitt. Það er von mín að Norðlendingar verði duglegir að koma í Norðurport og styðja við það sem þar er að gerast - frábært handverk og margt fleira.
Ég hef líka verið í þeirri krísu undanfarið að hafa stórar áhyggjur af heilsufari elstu systur sem er búin að glíma við krabbamein síðan í sumar. Útlitið er ekki gott en ég hef kosið þá leið að uppörva hana, leita óhefðbundinna leiða til þess að reyna að hjálpa henni og neita að trúa því versta firr en sá dagur kemur að það versta gerist. Það er mín ósk og von að það eigi ekki eftir að gerast en þá verður maður að takast á við það þegar og ef til þess kemur. Auðvitað hugsar maður og hugsar um það sem liðið er og það hversu gott maður hefur átt að þurfa ekki að takast á við þann alvarleika að missa náin ástvin í þessu lífi utan þess sem eðlilegt má teljast, ömmurnar og afana og frænkurnar og frændana sem flest voru orðið gamalt fólk, með fáum undantekningum. En svona í innsta hring höfum við fjölskyldan verið heppin og eigum hvort annað að enn þann dag í dag. Það er svo þakkarvert.
Við systur höfum alltaf verið nánar, hún er einu ári eldri en ég og í gegn um lífið eigum við svo margar minningar sem ég hef verið að fara í gegn um stig af stigi núna síðustu dagana - Ég hitti hana síðast í ágúst og kemst vonandi fljótlega aftur í heimsókn til hennar þar sem hún dvelur nú á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum, Þegar mesta hættan á svínaflensunni er liðin hjá. Það gefur auga leið að það væri slæmt fyrir svona mikið veikt fólk eins og hún er að fá þá flensu.
Í gær var átta ára dóttursonur minn fyrir aðkasti á leið heim úr skólanum. Hann var bitin af skólafélögum sínum og barin og hrópuð að honum orð sem ekki ættu að þekkjast í þessum aldursflokki....Mikið óskaplega varð ég hissa - þessi ljúflingur sem aldrei mundi gera flugu mein. Barn á saklausri göngu á björtum degi að lenda í slíku. Það sýnir manni enn og enn að það er engin öruggur í þessari veröld okkar sem ekki virðist lagast þrátt fyrir allt sem á undan er gengið.
En - elskurnar mínar, nú er ég búin að fá smá útrás og ætla að vera duglegri að skrifa hér inn og vonast til að gömlu bloggvinir mínir séu ekki alveg búnir að gleyma mér.
Ég hef saknað ykkar dúllurnar mínar.
Með ást og friði
Bloggar | Breytt 23.10.2009 kl. 07:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.9.2009 | 20:17
Komin með vinnu....
.... já, frúin er farin að vinna á gamla vinnustaðnum sínum "Póstinum" En ég vann hjá pósti og síma í 8 ár áður en ég byrjaði hjá Landsbankanum. Þar er gott fólk að leiðbeina mér og heilasellurnar fá að starfa og strita og það er afar ánægjulegt að finna að allt virkar þetta ennþá ágætlega og vera búin að fá vinnu.
Það er gott að vera komin aftur á vinnumarkaðinn eftir tæpt ár í atvinnuleysi - en auðvitað bjargaði ég mér sjálf og kom mér í "vinnu" á sínum tíma þar sem Norðurport er, en ég segi, að þó launin hafi bara verið ánægjan þá bjargaði sú hugmynd,mér frá því að leggjast í eymd og volæði - og það er svo miklu meira virði en peningar ! Og áfram skal haldið með Norðurportið - að sjálfsögðu, ég hendi sko ekki frá mér Norðurporti,svona einn tveir og þrír eftir það sem á undan er gengið.
Ég er líka búin að vera mjög hugsi og áhyggjufull vegna veikinda elstu systur minnar sem dvelur núna á krabbameinsdeild Landspítala og glímir við alvarleg veikindi - Auðvitað vonar maður það besta en það er erfitt að hugsa til þess ef ekkert verður hægt að gera. Núna akkúrat núna lítur út fyrir að allt sé að lagast - það er léttir ! Hugsa til hennar sem veit af alvöru málsins og alls þess sem hún er að hugsa um þessa erfiðu daga.
Knús, kertaljós og kærleikur til ykkar bloggvina minna
Bloggar | Breytt 9.9.2009 kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)