27.8.2009 | 18:39
Það nálgast eitt ár í atvinnuleysi....
En nú er ég komin með vinnu - örugglega til áramóta - jafnvel lengur.
Ég fer að vinna hjá mínum gamla vinnustað Póstinum í póstmiðstöðinni á Norðurtanga. En ég vann í 8 ár hjá Pósti og síma sem var og hét áður en ég fór að vinna hjá Landsbankanum. Ég hef loforð fyrir vinnu til áramóta og einhverja von um áframhald ef vel gengur.
Eftir að hafa rifið mig upp á síðasta ári strax eftir atvinnumissinn og byrjaði á að stofna Norðurport - alein og full af bjartsýni er ég samt búin að vera að sækja um á hinum ýmsu stöðum. Það sem mér hefur fundist leiðinlegast er að það að maður fær engin svör - móttekin umsókn eða búið að ráða - ekkert. Þetta þarf að laga.
Ég stefni ótrauð á það að reka Norðurport áfram næstu mánuði , hvernig ég fer að því verður tíminn einn að leiða í ljós en ég er ekki tilbúin til þess að henda þeirri vinnu allri frá mér strax, þar sem að Norðurport var mín hugmynd á þeim tíma sem mér leið afar illa. Þessvegna leitaði ég að vinnu sem var ekki vaktavinna og tókst fyrir rest. Á morgun verð ég komin í vinnu ! Hlakka til !
Mér leið afar vel þegar ég hringdi í Vinnumiðlun Norðurlands og sagði þeim þar að ég væri að byrja að vinna á morgun og þess vegna bað ég þau að afskrá mig af atvinnuleysisskrá ! Þvílíkur léttir fyrir manneskju sem aldrei hefur áður þurft að lifa við slíkt en er vön að bjarga sér sjálf.
Það fer ekki hjá því að á þessum tíma hafa öll plön - sem áður voru í lagi - riðlast til - greiðsluplön og annað - en vonandi tekst að leysa úr því á næstu mánuðum !
En svo lengi lærir sem lifir !
Auk þessa hefur ýmislegt komið uppá í fjölskyldunni - veikindi , og nú síðast greindist systir mín kær með krabbamein í heila og er mjög veik. En við fjölskyldan erum sem einn maður og gerum allt til þess að hún nái einhverri heilsu á ný.
Það eina sem ég get sagt núna er þetta. Guð gefi okkur öllum áframhaldandi samveru og "Er á meðan er !
Allt annað er "hjóm"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.8.2009 | 13:49
Skrítnir dagar.....
...þeir bara koma og fara og maður flýtur svona með.
Fór til Reykjavíkur á föstudaginn og kom aftur á mánudag. Erfið ferð en gott að hitta stórfjölskylduna og veika systur mína sem er að glíma við krabbamein í annað sinn.
Ég var svo lánsöm að fá að dvelja hjá henni eina nótt og hitti hana auðvitað oftar. Þannig að við náðum að tala saman um allt mögulegt, hlægja og gráta (bara smá) og allt þar á milli
Við fjölskyldan erum viss um það að hún fái bót meina sinna og setjum þannig allt traust á læknavísindin og ákvarðanir þær sem læknarnir taka.
Staðan er vissulega ekki góð en það er ótrúlegt hvað hægt er að gera í dag.
Það er því von í brjósti og við horfum hugdjörf fram á veginn - hvað annað ?
Knús til ykkar bloggvina minna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.8.2009 | 07:30
Nýr dagur.....
Bjart og fallegt hér fyrir norðan í dag. Átti að vísu svefnlitla nótt og var farin að bíða eftir dagsljósinu.
Var að tala við pabba minn sem varð 91 árs í gær. Við tölum stundum saman á morgnanna en í morgun beið ég með að hringja til klukkan 7, en hann var auðvitað löngu vaknaður. Við erum að vonum áhyggjufull yfir því að Solla systir er svona veik. Það kemur betur í ljós í dag með frekari rannsóknum hvernig staðan er en víst er að um alvarleg veikindi er að ræða.
Mig langar til að fara suður og hitta fólkið mitt - er að hugsa hvernig og hvenær ég get farið. Maður er eitthvað svo einmana hér langt frá öllum í fjölskyldunni.
Ég talaði í gær við mann sem ég hef talað við áður þegar erfitt hefur verið og vona að hann geti hjálpað og sent styrk.
Kveiki enn og aftur á kerti og bið þess að mál snúist til betri vegar.
Þangað til næst kærleikskveðjur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.8.2009 | 16:28
Angist og kvíði.....
Systir mín var að koma fárveik frá útlöndum með dóttur sína eftir strembið ferðalag síðan í gær.Engin veit hvað að er ennþá, en auðvitað er maður hræddur !
Það er svona angist sem nagar mann, maður æðir um gólf og getur ekkert gert. Þið kannist örugglega mörg við slíkt.
Ég gerði eins og svo oft áður í morgun þegar ég vaknaði og vissi að hún var að komast á leiðarenda, ég kveikti á kerti sem logar á borðinu hjá mér það veitir mér einhverja hugarró að horfa í logann og reyna að biðja og senda góða strauma til hennar og fjölskyldunnar.
Knús.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.8.2009 | 15:51
Nokkur orð....smá hugleiðing...
Skrítið að koma hér inn eftir að hafa verið að senda eina og eina línu inná Facebook. Kann nú betur við mig hér
Það er óyndi í mér - er alltaf að kíkja eftir vinnu og sækja um en ekkert gerist ennþá. Ég gat að vísu fengið eina vinnu í endaðan júlí en vinnutíminn var þannig að ég lagði ekki í það enda þá líka í hinum ýmsu önnum, Ketilásballið og undirbúningur fyrir markaðsdaginn um verslunarmannahelgina.
Nú hins vegar nálgast haustið óðfluga og næstum ár síðan ég missti vinnuna mína. Rekstur Norðurports hefur trúlega bjargað mér fram að þessu en þar sem það er allt orðið frekar í föstum skorðum og er bara um helgar gæti ég svo vel unnið hina dagana. Svo maður heldur bara áfram að líta í kring um sig - ég var eiginlega að vona að þetta lagaðist með haustinu þegar skólarnir byrjuðu en veit svei mér þá ekki.
Ég var að hugsa um það á dögunum hversu mikið ég hef lært í samskiptum við fólk síðan ég byrjaði með Norðurportið og hversu mjög maður þarf að vera á verði. Ég hef þurft að taka ákvarðarnir sem ekki eru vinsælar fyrir alla en sem betur fer er stærsti hópur sölufólksins í Norðurporti öðlingsfólk. En svo eru alltaf einhverjir sem þola ekki hvern sem er nálægt sér og það hefur stundum kostað vandamál, einnig hef ég lent í því að það hefur verið komið illilega aftan að mér og mikil illska leiðindi og umtal fylgt í kjölfarið. Sem betur fer hef ég góðar taugar og hef nánast aldrei í lífinu áður lent í leiðindum vegna samvinnu við aðra.
Eins og er gengur allt vel og ég tel að þeir sem eru félagslega vanþroskaðir og eru ekki vanir svona náinni samvinnu ættu ekki að reyna slíkt nema hafa áttað sig á þeirri ábyrgð sem fylgir því að ætla að vera hluti af vinnuteymi eins og því sem í Norðurporti er. Þar gildir að halda samstarfsandanum góðum líkt og alls staðar annarsstaðar.
Leiðinlegt að segja en stundum heyrir maður að "Konur séu konum verstar" og því miður er oft eitthvað til í því. Ég hef unnið með báðum kynjum og verð að viðurkenna að það er stundum ansi mikið vesen á kynsystrum mínum, sumum hverjum á meðan karlmenn mega vera fastir fyrir og eru ekki kallaðir vargar eða eitthvað þaðan af verra Og svo er það spurningin hverju er um að kenna ? Okkur sjálfum, uppeldinu eða....????
Vona að ég virki ekki of GRIMM sem ég tel mig alls ekki vera. En það sem ég vil númer eitt er að öllum líði vel sem vinna með mér og ég þoli ekki þegar talað er niður til fólks eða reynt að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra.
En svo lengi lærir sem lifir og skrápurinn þarf að vera svolítið sterkur til að standa í því að reka svona batterí þar sem nálægðin er svona mikil. Ég tel mig hafa hann og læt ekki valta yfir mig !
Ég er líka svo einstaklega heppin að hafa kynnst aragrúa af yndislegu fólki sem hefur haldið starfinu gangandi og fylgt mér frá byrjun.
Eigið sem allra bestan dag og ég ætla að vera duglegri að koma hér inn og tjá hugrenningar mínar. Þeir lesa sem nenna en allir geta bakkað út
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2009 | 15:31
Mikið verið að gera.....
Verslunarmannahelgin liðin og það var líf og fjör á markaðnum á Ráðhústorgi á sunnudaginn !
Veðrið setti strik í reikninginn en við sem vorum að selja fundum ekki svo mikið fyrir úðanum sem var þennan daginn. En sumir voru án tjalda þar sem við vorum með takmarkað magn og þeir sem voru þarna án skjóls eru hetjur auðvitað.
Það var svo einna helst þegar við vorum að taka saman tjöldin eftir klukkan 18:00 sem fór að rigna meira og við þurftum að dusta regnið af tjöldunum.
Þetta var mikil vinna - frá því klukkan 10:00 um morguninn var ég að og þegar við Norðurportskonur fórum á Ráðhúsorgið um klukkan 12:00 var allt á fullu það sem eftir lifði dags- Það er gott að eiga góða að og ég er þakklát þeim konunum sem komu með mér úr Norðurporti fyrir hjálpina, en þær sáu um uppsetningu tjalda og allt mögulegt auk þess að þrauka daginn En þetta var gaman og góð tilbreyting fyrir okkur, auk þess hittum við fullt af sölufólki sem gaman væri að sjá í Norðurporti !
Allskonar fínar vörur sem verið er að framleiða á svæðinu og eiga fullt erindi á markaðinn
Við þökkum fyrir okkur og það tækifæri sem okkur var gefið á sunnudaginn og sýnir að Norðurport er markaður sem tekið er eftir !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.7.2009 | 07:15
Flott ball, hippaballið á Ketilási.
Myndir sem Vilborg systir tók og ég rændi af Ketilássíðunni
Það var heldur betur fjör...
Gjörningurinn sem fólst í því að fólkið bjó til "Peace" merkið og söng "Allt sem við viljum er friður á jörð - eins og gert var á sínum tíma. Og hinn sanni andi friðar og kærleika var með okkur frá byrjun til enda...
Sælar nefndarkonur, þakka fyrir sig og sú vinna sem við lögðum í þetta ball skilar sér í þeirri gleði að fá að hitta ykkur öll og hlusta á þá flottu tónlist sem var búin til og varð vinsæl á "Hippaárunum" og heldur svo sannarlega ennþá velli !Það eru ýmis lög sem sitja eftir í kollinum á manni núna og minningar tengdar ballinu, markaðnum, uppboðinu, gjörningnum og öllu því stússi sem fylgdi Fleiri myndir á ketilas08.blog.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.7.2009 | 07:01
Systramynd tekin á ballinu á Ketilási...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.7.2009 | 21:00
Komin aftur....
Ég verð að viðurkenna að ég hef verið löt að blogga en ætla nú að að koma aftur. Ég er nefnilega farin að sakna bloggvina minna. Facebook er ágæt en svolítið yfirborðsleg finnst mér !
Ég hef verið í hinum ýmsu verkefnum í sumar í Norðurporti og svo verður áfram. Samt hefur maður fundið fyrir því að sveitamarkaðirnir hafa truflað og það er eitt sem þarf að laga að þar leyfast hlutir sem við í Norðurporti megum ekki gera án sérstaks leyfis og viðurkenningar á eldhúsum, eins og heimabakstur, sultur og fleira. Þetta ósamræmi gengur ekki lengur og mun ég nú reyna að gera eitthvað í málunum. Þó litið sé fram hjá sveitamörkuðum sem eru þó um hverja helgi hér fyrir norðan þá er það eitthvað sem þeir sem eru með rekstur allt árið geta ekki liðið.
Síðasta helgi var flott en þá var hið langþráða Ketilásball haldið og tókst það mjög vel. Það var alveg rosalega gaman en auðvitað mikil vinna líka, svo var markaðurinn sem haldin var á laugardaginn í tengslum við ballið mjög góður ! Á þessum markaði var selt allt mögulegt úr heimaeldhúsum og engin að skipta sér af því.
Maður fær eiginlega spennufall eftir svona helgi sem búin er að vera í undirbúningi í heilt ár og nú byrjar undirbúningur, hægt og hægt fyrir næsta ár.
Næst er það svo verslunarmannahelgin og þar verður "stórmarkaður" á sunnudaginn. Fullt af fólki búið að skrá sig til þátttöku á " Ein með öllu - og allt undir" Vonandi verða veðurguðirnir okkur hliðhollir ! Stefnir í allra stærsta markað sumarsins á Norðurlandi !
Meira fljótlega frá mér.
Njótið kvöldsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.7.2009 | 11:41
Smá misskilningur í fréttinni...
Ágóðinn af málverkauppboðinu rennur óskertur til Þuríðar Hörpu. Vonumst eftir góðum undirtektum svo við getum stutt myndarlega við hana ! Málverkauppboð verður bæði á markaðnum og á ballinu.
Annars takk fyrir góða grein.
![]() |
Hippaball á Ketilási á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)